Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 18:51:25 (6197)

2004-04-06 18:51:25# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[18:51]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, það þarf ekki að þýða að ég hafi stutt það. Ég tel að þetta hafi verið mistök. Ég tel að þessi breyting hafi sett Íslendinga í þann vanda sem þeir eru í núna. Nú er það orðið þannig að hæstv. utanrrh. landsins þarf að standa í að velta því fyrir sér alla daga hvað eigi nú að taka fyrir næst í sambandi við einhvers konar hernaðarátök og afstöðu til þeirra, það sem menn gerðu ekki áður, einfaldlega vegna þess að menn töldu það ekki vera rétt.

Ég óska eindregið eftir því að hæstv. ráðherra útskýri í orðum sínum hér á eftir --- ég geri ráð fyrir að hann ætli að svara mönnum í lokin --- hvort hann telji sig virkilega hafa mannskap og þekkingu til að ráðleggja sér hvað eigi að gera í sambandi við hin ýmsustu hernaðarátök sem séu í aðsigi í heiminum. Ætlar hann sér þá að koma sér upp þeim sveitum af sérfræðingum sem til þarf? Ég held að svarið verði ekki þannig. Þess vegna eiga Íslendingar ekkert erindi í það að taka ákvarðanir um hernað úti í heimi. Mér finnst satt að segja þessari tilraun Íslendinga til að blanda sér aftur í hetjuskap annars staðar á jarðkúlunni ætti að ljúka sem allra fyrst.