Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Þriðjudaginn 06. apríl 2004, kl. 19:33:37 (6205)

2004-04-06 19:33:37# 130. lþ. 95.4 fundur 460#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 130. lþ.

[19:33]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta sé ekki misskilningur á milli mín og hæstv. utanrrh. heldur bara grundvallarskoðanamunur um hvaða vegferð sé okkur góð. Ég vil leggja upp þá vegferð að lítið ríki, Ísland, lítið en öflugt þjóðríki, á að vera boðberi friðar og beita sér á þeim vettvangi og reyna að bæta heiminn á grundvelli friðar en ekki með vopnaðri íhlutun eða vera meðreiðarsveinn í vopnaðri íhlutun gegn öðrum þjóðum. Það má vel vera réttlætanlegt undir einhverjum skilyrðum að beita vopnum gagnvart annarri þjóð en það er ekki hlutverk Íslendinga. Alls ekki. Og ég tel þess vegna að þeir fyrirrennarar hæstv. utanrrh. sem voru hér fyrr á síðustu öld og mótuðu utanríkisstefnuna þá, hafi lagt áherslu á friðarþátt Íslendinga og þátttaka okkar í Atlantshafsbandalaginu var einmitt bundin því. En nú er hlutverk Atlantshafsbandalagsins að breytast úr varnarbandalagi í það að verða bandalag sem á að sópa upp eftir stríðsaðgerðir Bandaríkjamanna. Það eru að vísu deilur um það innan bandalagsins. Ég sé að utanríkisráðherrar bæði Frakka og Þjóðverja hafa nú dregið í efa að það eigi að vera hlutverk Atlantshafsbandalagsins að sópa upp eða koma í kjölfar grimmilegrar innrásar Bandaríkjamanna. En hæstv. utanrrh. hefur talið að það væri einmitt hið nýja hlutverk Atlantshafsbandalagsins. Ég er bara gjörsamlega mótfallinn því.