Starfsumhverfi dagmæðra

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 14:21:44 (6254)

2004-04-14 14:21:44# 130. lþ. 96.5 fundur 731. mál: #A starfsumhverfi dagmæðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[14:21]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félmrh. um starfsumhverfi dagmæðra. Ástæðan er sú að í drögum að nýrri reglugerð sem félmrn. sendi sveitarfélögum og félögum dagforeldra til umsagnar hinn 9. febrúar sl. er lagt til að hvert dagforeldri eða dagmóðir eins og segir í reglugerðinni megi ekki hafa fleiri en fjögur börn. Dagforeldrar eru ósáttir við þetta nýja ákvæði og telja að með því sé verið að kippa stoðum undan rekstri daggæslu í heimahúsum. Það má færa sterk rök fyrir því að sú sé einmitt raunin verði þetta ofan á.

Samkvæmt reglugerðinni sem hefur verið í gildi frá árinu 1992 má dagforeldri með a.m.k. eins árs starfsreynslu hafa fimm börn í umsjá sinni. Dagmæður eru afar ósáttar við tillögu um breytingarnar enda mundi hún að óbreyttu verða til þess að tekjur þeirra mundu skerðast um heil 20%. Dagforeldrar fá fasta niðurgreiðslu frá hverju sveitarfélagi fyrir hvert barn sem þeir annast um en greiðslan nemur um 14 þús. kr. á mánuði fyrir hvert barn sem er allan daginn hjá dagforeldri í Reykjavík, svo dæmi sé tekið. Miðað við fimm börn í gæslu nemur niðurgreiðslan því 70 þús. kr. á mánuði en lækkar í 56 þús. kr. verði dagforeldrum gert að fækka úr fimm börnum í fjögur. Ofan á greiðslurnar til dagforeldra bætist svo við taxti sem ákveðinn er af viðkomandi dagforeldri. Algengt gjald sem foreldrar greiða fyrir barn sem er hjá dagforeldri allan daginn er 39--43 þús. kr. á mánuði. Á móti því gjaldi kemur svo niðurgreiðsla frá sveitarfélaginu.

Fullyrða má, virðulegi forseti, að dagmæður á Íslandi sinni mikilvægu starfi við gæslu og umönnun ungra barna á meðan dagheimili taka ekki við börnum fyrr en um tveggja ára aldur. Þar sem fæðingarorlof getur samanlagt lengst orðið 9 mánuðir er þörf á þjónustu dagmæðra fyrir þá foreldra sem kjósa að halda aftur til starfa út á vinnumarkaðinn og sem þurfa jafnvel á því að halda.

Félmrh. skipaði sérstakan starfshóp til að fjalla um reglugerðardrögin sem ég gat um í upphafi en þar er ekki gert ráð fyrir fulltrúum viðskiptavina þjónustunnar í þennan hóp, þ.e. foreldrum þeirra barna sem nú njóta dagvistar hjá dagmæðrum og dagforeldrum. En ráðuneytið telur sig hafa umboð foreldra til að skerða þjónustuna frá því sem nú er og hækka verð hennar ef það gengur eftir þannig að dagforeldrar geti mætt þeirri tekjuskerðingu sem þeir verða fyrir um heil 25% og er þá mikið á þá lagt sem lítið hafa úr að bíta.

Því beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. félmrh.:

1. Hvaða áhrif telur ráðherra að breytingar á starfsumhverfi dagmæðra hafi, sem fela í sér að hver dagmóðir má ekki hafa fleiri en fjögur börn?

2. Telur ráðherra að breytingin rýri kjör dagmæðra um 20% eins og fram er haldið?

3. Telur ráðherra að breytingin muni leiða til verulegrar hækkunar á vistunargjaldi barna hjá dagmæðrum og þá hve mikillar?