Framkvæmd laga um leikskóla

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:25:25 (6279)

2004-04-14 15:25:25# 130. lþ. 96.8 fundur 253. mál: #A framkvæmd laga um leikskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:25]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það að ég tel að ráðuneytið hafi einmitt uppfyllt þær eftirlitsskyldur sem kveðið er á um í lögum að því beri að fylgja eftir eftirliti með leikskólum og hvaða starfsemi þar fer fram.

Í rauninni á ekki að þurfa að taka sérstaklega fram að það þurfi að hafa eftirlit með því að aðbúnaður með fötluðum börnum sé nægilega góður, því fötluð börn eru leikskólabörn alveg eins og önnur börn og það þarf að uppfylla þarfir þeirra eins og annarra barna. Að mínu mati (Gripið fram í.) felur eftirlitið sem ráðuneytið hefur með höndum í sér að þeim sem með það fara beri auðvitað að sjá til þess að því eftirliti sé fylgt, að þarfir fatlaðra barna séu uppfylltar á allan hátt.

Ég vil geta þess sem ég komst ekki yfir áðan að ráðuneytið hefur að auki gert u.þ.b. tvær úttektir á ári, sem er meira en kveðið er á um. Gerðar hafa verið fjórar úttektir í Reykjavík, ein í Kópavogi, ein á Dalvík, ein á Hólmavík, tvær í Grindavík, ein í Reykjanesbæ, ein í Árborg og ein á Reyðarfirði. Í þessum 12 úttektum kom ekki fram að eftirliti og þörfunum væri eitthvað ábótavant, en að sjálfsögðu mun ég ítreka það og ítreka það hér með að ég mun fylgja þessu eftir. Ég mun sjá til þess að við ræðum þetta og tökum þetta mál upp við Samband íslenskra sveitarfélaga því við þurfum að koma til móts við þessar þarfir og ekki bara koma til móts við þær, heldur reyna að sjá til þess að aðbúnaði fatlaðra sem ófatlaðra barna sé viðunandi skipað á allan hátt.