Tónlistar- og ráðstefnuhús

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:27:34 (6280)

2004-04-14 15:27:34# 130. lþ. 96.9 fundur 799. mál: #A tónlistar- og ráðstefnuhús# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi GunnB
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:27]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina nokkrum spurningum til hæstv. menntmrh. um byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss, en byggingarsaga þess hefur verið löng. Ætli hún hafi ekki byrjað upp úr 1980. Þá var meiningin að byggja það í Öskjuhlíðinni og var stofnað undirbúningsfélag og safnað peningum. Síðan var fengin lóð í Laugardal og efnt til samkeppni og til er teiknað hús. Núna er verið að tala um tónlistar- og ráðstefnuhús niðri á höfn í Reykjavík eða að fara eitthvert annað.

Fyrsta spurning mín er: Hvenær og hvar á að reisa tónlistar- og ráðstefnuhús á höfuðborgarsvæðinu? Hefur eitthvað breyst í þeim málum, eða hvað?

Í öðru lagi spyr ég hæstv. menntmrh.: Hvað er áætlað að slíkt hús kosti?

Það hafa heyrst alls konar misvísandi tölur. Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var skrifað undir samning milli ríkisins og Reykjavíkurborgar um byggingu þessa húss. Ég náði aldrei hver endanlegur kostnaður mundi verða og hver mundi borga hvað.

Þriðja spurning mín til hæstv. ráðherra er: Hve mikið leggur ríkissjóður til þessa verkefnis?

Er þetta verkefni á vegum ríkisins og borgarinnar eða verkefni í einkaframkvæmd eða slíkt? Það vakti athygli mína að á síðasta ári lagði Reykjavíkurborg fram 150 millj. kr. til undirbúningsframkvæmda á lóð fyrir tónlistarhús. Í viðtali við Morgunblaðið sagði borgarstjóri að hann ætlaðist til að fá jafnmikið framlag frá ríkinu til þessara undirbúningsframkvæmda. Ég vissi ekki hvernig því reiddi af, en lóðin er greinilega ekki tilbúin til byggingar ef hún á að vera þarna.

Í fjórða lagi spyr ég hæstv. ráðherra: Er gert ráð fyrir að Íslenska óperan verði í tónlistarhúsinu og hvað mundi það kosta?

Það hefur verið talað um að við gleymum að byggja yfir sönginn. Ef við erum að byggja tónlistarhús, á ekki söngurinn að vera þar inni eða á hann að vera áfram í Gamlabíói? Er hægt að hafa þetta saman án þess að kostnaðurinn fari upp úr öllu valdi? Ég ætla að biðja hæstv. ráðherra að svara þessum spurningum.