Gjaldfrjáls leikskóli

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 15:56:46 (6296)

2004-04-14 15:56:46# 130. lþ. 96.10 fundur 835. mál: #A gjaldfrjáls leikskóli# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[15:56]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Allir vildu Lilju kveðið hafa, segir einhvers staðar. Það er ágætt ef það næst breið samstaða um þetta góða málefni og mikilvæga, að gera leikskólann gjaldfrían.

Reyndar komu mér á óvart ummæli hæstv. menntmrh. sem taldi þetta ekki vera forgangsatriði og ekki reyndar efnahagslegar forsendur fyrir því að stuðla að því að þetta markmið nái fram að ganga. Ég vek athygli á því að það er unnið að þessu í sveitarfélögum, m.a. hér í Reykjavík, en í haust mun hluti fimm ára barna fá frían leikskóla í Reykjavík. Það er okkur sérstakt fagnaðarefni í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði því að, eins og hér hefur komið fram, þetta var eitt af helstu kosningamálum okkar fyrir síðustu alþingiskosningar. Hins vegar skiptir ekki máli hver setur málin fyrst fram eða hvaðan frumkvæðið kemur, öllu máli skiptir að þetta góða málefni nái fram að ganga.