Tvöföldun Vesturlandsvegar

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:31:00 (6342)

2004-04-14 19:31:00# 130. lþ. 96.18 fundur 741. mál: #A tvöföldun Vesturlandsvegar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:31]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Mér fannst svar hæstv. ráðherra ekki alveg nógu skýrt því hann talaði um að komið væri að þeim tíma að bjóða verkefnið út en fjárheimildir skorti til þess að hægt væri að gera það og að þetta þyrfti að endurskoða í sambandi við endurskoðun á vegáætlun. Ég spyr því: Er það þá svo að hæstv. ráðherra sé að tala um að þær fjárheimildir sem hann skortir þurfi að bíða afgreiðslu þeirrar áætlunar, eða hvað? Mig langar að heyra svolítið skýrara svar við þessu því það væri ekki heppilegt ef það væri ofan á að bíða þyrfti eftir breytingu á vegáætlun til þess að geta tekið þá ákvörðun sem þarf að taka um útboð á þessu verkefni.