Tvöföldun Vesturlandsvegar

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:33:11 (6344)

2004-04-14 19:33:11# 130. lþ. 96.18 fundur 741. mál: #A tvöföldun Vesturlandsvegar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:33]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegur forseti. Ég skil mætavel að hv. þingmenn hafi mikinn áhuga á því að þessi framkvæmd megi komast af stað og þeir valkostir sem við höfum eru kannski ekki mjög margir. Kostnaðaráætlun er um 900 millj. miðað við hringtorg. Við höfum 520 millj. til þeirra framkvæmda. Það sem við munum að sjálfsögðu gera er að fara yfir málið, eins og við gerum venjulega áður en kemur að því að setja það í útboð, og leita leiða til þess að nýta þá e.t.v. ónýttar fjárveitingar í öðrum verkum innan sama kjördæmis ef það mætti verða til þess að leysa málið.

Það er sú venjulega leið sem við verðum að fara því að Alþingi hefur ekki samþykkt meiri fjármuni til verka en í samgönguáætluninni eru. Það er ekki hægt að kippa neinum kanínum upp úr hatti til þess að koma af stað verkum sem ekki eru fullfjármögnuð. Við þurfum því að fara yfir málið með þessum hætti og það munum við gera á næstunni og hafa samráð um það við þingmenn þess kjördæmis sem um er að ræða.

Það fer ekkert á milli mála að þetta er mikil umferðaræð en ég veit hins vegar að það er jafnframt mikil umferðaræð Reykjanesbrautin í gegnum Kópavog, Garðabæ og Hafnarfjörð og suður eftir sem þarf að setja af stað framkvæmdir við, þannig að það er í mörg hornin að líta. Vonandi leysist þetta og það skýrist þá fyrr en seinna hvernig á því verður tekið, en útboð getur ekki farið fram nema við höfum leyst fjármögnunina.