Sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins

Miðvikudaginn 14. apríl 2004, kl. 19:44:31 (6347)

2004-04-14 19:44:31# 130. lþ. 96.20 fundur 834. mál: #A sameining Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins# fsp. (til munnl.) frá landbrh., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 130. lþ.

[19:44]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir ágæta röksemdafærslu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar um að það sé á vissan hátt hagstætt að sameina Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Ég var á dögunum á mjög merkri og góðri og afskaplega vel skipulagðri ráðstefnu á vegum Landgræðslunnar austur á Hvolsvelli þar sem einmitt var fjallað um landgræðslumál og skógrækt og landið, Ísland, í ljósi t.d. hamfara vegna eldgosa. Þar kom mjög greinilega fram að þessar stofnanir eiga mjög margt sameiginlegt og það er í raun og veru með ólíkindum að þær skuli ekki hafa verið sameinaðar fyrir löngu síðan. Ég tel að þetta eigi að skoða mjög vandlega.

Annað sem ég vil minnast á er að mér finnst svolítið skrýtið að hlusta á hæstv. landbrh. tala alltaf eins og landið sé til fyrir bændur. Ég er ekki sammála þeirri skoðun landbrh. Bændur eru hluti af landinu og bændur eiga að vera til fyrir landið. Þannig á að líta á hlutina en ekki að landið eigi að vera til fyrir bændur.