Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 11:41:39 (6372)

2004-04-15 11:41:39# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, KÓ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[11:41]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Hér erum við að ræða tvö frumvörp hæstv. landbrh. um búnaðarfræðslu og rannsóknir í þágu atvinnuvega. Mig langar að kveðja mér hljóðs ekki síst fyrir það að ég á sæti í menntmn. þar sem við höfum undangengin ár á Alþingi farið yfir og breytt fjölmörgum framhaldsskólum hér á landi. Síðast var það tækniskóli sem gerður var að tækniháskóla. Þannig mætti rekja að margir skólar hafa verið settir á háskólastig. Þannig hefur þróunin verið og ég held að það sé mjög gott og gagnlegt að horfa svolítið í baksýnisspeglana og jafnvel enn lengra aftur í tímann þegar hinir ýmsu sérskólar sem tilheyrðu iðnaðinum, sjávarútveginum og fleiri atvinnugreinum heyrðu undir viðkomandi fagráðuneyti.

Sú þróun hefur átt sér stað hér á landi að skólar hafa færst frá fagráðuneytunum og undir menntmrn. Menn geta auðvitað dæmt um það í þeirri umræðu sem nú á sér stað um þessi frumvörp hvort það hafi verið til góðs eða ekki. En ég held að það sé sjálfsagt, nauðsynlegt og eðlilegt að umræða sé tekin upp við afgreiðslu þessara tveggja frumvarpa um hvernig til hafi tekist og hvort rétt sé að huga að því að færa landbúnaðarmenntunina undir menntmrn.

Ég hef átt sæti á búnaðarþingi sem hefur einmitt fjallað um þessi atriði. Þar hafa komið fram fulltrúar sem hafa viljað skoða þetta, þ.e. hvort þessi starfsemi eigi að færast undir menntmrn. Ég er ekki að segja að svo sé endilega en vil taka þá umræðu upp við umfjöllun um þessi frumvörp.

Við áttum þess kost í menntmn. að fara í heimsókn til Menntaskólans í Kópavogi um daginn og skoða þar Hótel- og veitingaskólann sem er búinn mjög vel út og kemur óbeint að þeim málaflokki sem landbúnaðurinn er, þ.e. úrvinnslu landbúnaðarafurða. Það er mjög vel búið að þeim skóla. Hann virðist vel tækjum búinn og hafa fengið það fjármagn sem hann hefur þurft og er virkilega gaman að heimsækja þá stofnun.

Mér finnst eðlilegt að við skoðum svolítið í þessum frumvörpum, þegar sú stefna er mótuð sem þau gera ráð fyrir, hvert við erum í raun að fara og hvernig. Það er verið að steypa saman tveim stofnunum sem við þekkjum sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. En skólarnir, annars vegar á Hólum og á Reykjum í Ölfusi, eru á sinn hátt skildir eftir að mér finnst. Ég hefði viljað sjá þetta meira unnið heildstætt og í samhengi. Ég vil nefna það hér að hæstv. landbrh. skipaði þrjár nefndir, líklegast árið 2002, og hver þessara þriggja nefnda hafði það verksvið að fara yfir stöðu og móta stefnu fyrir hvern þessara þriggja landbúnaðarskóla. Mjög áhugaverðar skýrslur komu þar fram og margt var mjög áhugavert sem kom fram í þeim skýrslum. Ég hefði viljað sjá það hnýtt upp í eitt frv. og þá með Rannsóknastofnun landbúnaðarins og það skoðað og rætt í samhengi. Ég held að það hefði orðið mjög gagnlegt fyrir okkur og þetta getur nefndin sem fær þessi tvö frumvörp til umfjöllunar auðvitað gert.

Herra forseti. Mig langar aðeins að vitna til frv. sem lýtur að rannsókn í þágu atvinnuveganna, í c-lið 2. gr. frv. sem verður 31. gr. laganna. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Landbúnaðarháskóli Íslands hefur umráð yfir þeim tilraunastöðvum á sviði landbúnaðar sem ríkið á.``

Ég átta mig ekki fullkomlega á því hvað þetta þýðir. Þess vegna vil ég spyrja um þetta. Ég var að skoða frv. áðan. Þýðir þetta að Landbúnaðarháskóli Íslands eigi að hafa með alla tilraunastarfsemi á Reykjum í Ölfusi að gera sem lýtur að garðyrkju, alla starfsemi varðandi tilraunir á Mógilsá, á Hólum og hjá Veiðimálastofnun? Eða hver er eiginlega stefnan nákvæmlega? Ég hef kannski ekki farið nógu ítarlega ofan í þessi frumvörp en ég sé ekki nákvæmlega hvað við ætlumst til með þessu.

Í umræðunni áðan var rætt um verkaskiptingu skólanna og hvernig svo sem lendingin verður með þessi frumvörp þá þarf verkaskiptingin að vera skýr. Því vil ég nefna tvö atriði sem mér finnst vera of óljós. Þau eru annars vegar það að í dag annast Rannsóknastofnun landbúnaðarins svið sem varðar jurtasjúkdóma og kynbætur á jurtasviðinu. Mér finnst eðlilegt að það færist undir Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum vegna þess að það tilheyrir þeim fagskóla landbúnaðarins. Þar sem verið er að taka þetta upp finnst mér það eðlilegt. Einnig má nefna verkefni sem lúta að landslagsarkitektúr, landsköpun. Þessi verkefni skarast núna á milli skólanna, annars vegar Hvanneyrar og Reykja. Ég tel eðlilegt að kveðið verði skýrt á um hvernig þeim málaflokki skuli varið í framtíðinni. En báðir skólarnir koma að þessari fræðslu nákvæmlega.

Herra forseti. Ég held að ég hafi komið á framfæri athugasemdum og spurningum mínum að sinni.