Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:19:16 (6396)

2004-04-15 14:19:16# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þó ég kunni því vel að hæstv. landbrh. líði vel þegar hann heyrir í vísindamanninum sem hér talar, kann ég því líka vel að varaformanni Framsfl. líði illa þegar hann heyrir í stjórnmálamanninum Össuri Skarphéðinssyni. Þannig á það að vera.

Herra forseti. Ég tel að eitt af því sem við eigum að skoða er að kanna hvort ekki sé hægt að efla bæði atgervi Veiðimálastofnunar og rannsóknarþróttinn sem klárlega er að brjótast fram í Hólaskóla með því að tengja þessar tvær stofnanir saman. Ég vil taka vara við einu: Ég hef af því erfiða reynslu sjálfur að flytja stofnanir til á landinu með of miklu offorsi. Varðandi hugmyndina sem við erum að ræða og líka varðandi hugmyndina sem er að finna og er aðalatriðið í fyrra frv. hæstv. ráðherra tel ég að við þurfum að fara mjög varlega í að skella saman stofnunum með þeim hætti að of mikið rót verði á högum þeirra góðu starfsmanna sem þar starfa.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að Hólaskóli er í fremstu röð að því er bleikjuna varðar, bæði að því er varðar hvers konar rannsóknir og líffræði hennar en ekki síður á sviði kynbóta. Spurningin er hvort svipað væri ekki hægt að gera með urriða sem er einstakur fiskur að því leyti til að hann hefur svo fjölbreyttar erfðir, að það er auðvelt að ná fram sterkum og eftirsóknarverðum þáttum í fari hans. Ég bendi líka á að samvinna Veiðimálastofnunar og Hólaskóla hefur leitt í ljós algerlega nýja þekkingu á sviði annarrar fisktegundar sem er állinn sem gæti bent til þess að við gætum nýtt þá tegund miklu meira en hingað til. Ég tel því að hægt væri að færa fram mörg rök fyrir samtvinnun með þessum hætti. Almennt er ég þeirrar skoðunar að íslenskar stofnanir séu allt of litlar. Það þarf að styrkja þær með því að fækka þeim og sameina þær.