Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 15:15:06 (6418)

2004-04-15 15:15:06# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að gleðjast lítillega yfir því að hæstv. ráðherra virðist beina því til hv. landbn. að hún taki málið til skoðunar með þeim gleraugum að úr þessu meginatriði megi bæta. Hæstv. ráðherra tók undir það að án trúverðugleika er öflug rannsókna- og kennslustofnun á háskólastigi akkúrat einskis virði. Það að rektor sé skipaður beint af ráðherra sjálfum selur gagnrýnendum sjálfdæmi um það að brigsla skólanum og stjórnendum hans pólitíska múlbindingu hvers konar þegar rektor er skipaður beint af ráðherra, æðsta yfirmanni viðkomandi stofnunar. Það er stílbrot við hvers konar skipan mála á háskólastigi. Það hefur alltaf verið algjört grundvallaratriði við uppbyggingu háskóla út um allan heim um þær aldir sem háskólar hafa tíðkast í þeirri mynd sem við þekkjum þá, að tryggja sjálfstæði háskólanna. Ósjálfstæður háskóli undir járnhæl stjórnmálamanna hverju sinni er einskis nýt stofnun sem við viljum ekki sjá í menntaflóru okkar. Þess vegna rak mig í rogastans þegar frv. var lesið og fram kom að skipan mála væri með þeim hætti að horfið væri aftur til einhvers sem við þekkjum ekki úr rekstri og starfsemi háskóla, að ráðherra skipi rektor beint. Ég vona að hv. landbn. taki það sem áskorun frá okkur sem hér höfum talað og jafnvel jákvætt vink frá hæstv. ráðherra að henni leyfist að breyta þessu atriði.

Hins vegar ætla ég að ítreka ósk nokkurra okkar sem höfum talað í dag um að frv. verði einnig vísað til hv. menntmn. og hv. umhvn. Það er mjög mikilvægt fyrir endanlega útkomu þess að málið fari einnig þangað til umfjöllunar.