Tónlistarsjóður

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 18:41:50 (6456)

2004-04-15 18:41:50# 130. lþ. 97.9 fundur 910. mál: #A tónlistarsjóður# frv. 76/2004, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[18:41]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa málefnalegu umræðu sem hefur átt sér stað í þingsalnum um þetta frv. mitt og hlý orð ágætra hv. þm. sem hér töluðu í minn garð.

Svo ég stikli aðeins á þeim atriðum sem komu fram eru markmiðin með frumvarpinu skýr, þ.e. að efla og styðja við tónlist og tónlistarsköpun í landinu, bæði innan lands sem erlendis. Einmitt þegar við unnum að frv. komu eðlilega og sem betur fer upp ýmis atriði sem menn svona hentu á milli sín og síðan náðist góð sátt um þau atriði.

Menn hafa staldrað við skipanina sem getið er um í 2. gr. og af hverju menntmrh. skipar þar tvo af þremur. Ég vil benda á fyrirkomulag sem hefur gefist ágætlega og menn hafa ekki verið að fetta fingur út í, þ.e. skipan þjóðleikhúsráðs. Af fulltrúum þar skipar menntmrh. þrjá. Að mig minnir við framsögu á því frv., þjóðleikhúslögunum, á sínum tíma var það markmið viðkomandi ráðherra að hafa fulltrúa ráðherra skipaða úr sem breiðustum hópi manna. Ég vil geta þess að í þjóðleikhúsráði í dag fyrir hönd menntmrh. sitja Matthías Johannessen, Kristín Ástgeirsdóttir og Haraldur Ólafsson prófessor. Ég tel það því líka mitt hlutverk að þessir tveir fulltrúar ráðherra hafi breiða skírskotun.

Samtónn hefur gegnt því hlutverki að vera nokkurs konar regnhlífarsamtök tónlistarmanna, FÍT, FÍH, útgefendur og fleiri þannig að það er í raun regnhlífin yfir alla þá sem að þessu koma.

Ég stend frammi fyrir því að hafa þessa þrjá aðila og ég tel að rétt sé að skipa þessu svona. Menn hafa nefnt það hér og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefndi það að taka inn tónlistarmennina. Ég efast ekki um að útgefendur vilji líka fá sinn fulltrúa og hljómlistarmenn vilji líka fá sinn fulltrúa þannig að ég tel rétt að Samtónn hafi þetta hlutverk og gegni því.

Síðan voru menn líka að velta því fyrir sér hvort ekki ætti þá að fjölga upp í fimm. Ég er meira hrifin af því að hafa stjórnir fámennari og setja meiri peninga í verkefnið sjálft því undir eins og við erum komin með fimm manna stjórnir og ráð þá erum við byrjuð að veita umtalsverða fjármuni í stjórnsýsluna sjálfa í stað þess að verkefnin sem slík fái það fjármagn sem þau vissulega þurfa á að halda á hverjum tíma. Mat mitt var því að haga þessari skipan eins og ég lagði hana fram.

[18:45]

Varðandi hugmynd sem kom frá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni og hv. þm. Helgi Hjörvar tók einnig undir um deildaskiptinguna á sjóðnum, að þetta skyldi vera þriggja deilda sjóður í stað tveggja deilda þá yrði það einfaldlega að mínu mati of flókið kerfi. Ég tel að það yrði ekki nægilega skilvirkt enda tel ég ekki rétt að binda hendur þeirra sem með þennan sjóð fara og aðdáenda tónlistarinnar um of. Það er líka erfitt að greina skil á milli kynningar og markaðsátaks, þ.e. hvenær eitthvað fer úr því að vera kynning innan lands yfir í það að fara út í hinn víða og stóra heim. Ég held að við séum þá einfaldlega að byggja upp of flókið kerfi. Við eigum frekar að hafa línurnar skýrar og veita síðan stjórninni, tónlistarráðinu og þeim tónlistarmönnum sem fá viðkomandi styrki svigrúm og heimild til þess að setja fjármunina í þau verkefni sem þeir biðja um að fá fjármuni í. Ég vil ekki að lögin bindi hendur manna um of í þessu tilviki. Þess vegna hef ég lagt þetta fram eins og ég hef gert í 1. gr.

Ég tek að sjálfsögðu heils hugar undir það með hv. þingmönnum að tónlistin skiptir okkur öll máli, hvort sem það er klassísk tónlist eða popptónlist. Við eigum stórkostlega listamenn og menn hafa náttúrlega sett Björk þar fremsta á oddinn. Hún hefur tvímælalaust skipt sköpum fyrir menningarlíf okkar og tónlistarlíf, bæði hér innan lands sem utan, og það er alveg óþarfi af minni hálfu að tíunda hversu mikið kraftaverk hún er fyrir hönd þjóðarinnar. Hér eru ýmsir fleiri listamenn sem eiga mikla möguleika ef við höldum áfram að hlúa að þeim og styðja þá. Það er mín skoðun að ríkisvaldið eigi að ýta við nýsköpun, styðja við barnið þegar það er að fara að heiman. Síðan eigum við að sleppa þeim lausum og reyna að finna fleiri nýsköpunartækifæri til þess að ýta úr vör. Það á ekki að vera þannig að menn verði síðan sjálfala í kerfinu sem slíku. Þá er ég hrædd um að nýliðun yrði lítil og við sæjum ekki jafnkröftugt menningar- og tónlistarlíf og í dag.

Ég vil geta þess að á menningarkynningu Íslands í Frakklandi í lok september skipar tónlistin einmitt veigamikinn sess. Það er vonandi að þar nái mörg góð flaggskip íslenskrar tónlistar að koma fram, t.d. Sigur Rós eða Bang Gang og fleiri og fleiri. Við erum líka með klassíska tónlist. Við erum með stórkostlega listamenn, t.d. Kristin Sigmundsson og unga menn eins og píanóleikarann okkar Víking Heiðar. Víkingur Heiðar er einmitt dæmi um tónlistarmann sem ég tel að við eigum að hjálpa til að verða einn af bestu píanóleikurum heims.

Að svona hlutum á ríkið að koma, að nýsköpun, að því að styðja og hjálpa ungu listafólki til þess að það geti nokkuð áhyggjulaust tekið fyrstu skrefin í tónsköpun sinni.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum rétt fara aðeins inn á fjárframlögin. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég mun beita mér fyrir því að framlög til tónlistarsjóðsins komi til með að aukast frá því sem nú hefur runnið til þessara verkefna. Þau eru, eins og segir í umsögninni frá fjárlagaskrifstofu fjmrn., á bilinu 20--30 milljónir. Hagsmunaaðilar sem við ræddum við töluðu um tvöföldun á slíku framlagi. Ég ætla hvorki að lofa einu né neinu hér og nú en ég mun a.m.k. beita mér fyrir því að aukning verði á því framlagi sem ríkið hefur sett til þessa málaflokks fram til þessa.

Að lokum þakka ég enn og aftur góða og málefnalega umræðu og vonast til þess að málinu verði vísað til hv. menntmn.