Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 19:39:01 (6475)

2004-04-15 19:39:01# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[19:39]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að töluverður munur er milli ráðuneyta á því hversu mörg verkefni er tekist á við. Þó er rétt að halda því til haga í þessari umræðu að ekkert ráðuneyti er með færri verkefni en þau sjö á sinni könnu sem ríkisstjórnin leggur til og er í forsvari fyrir.

Það er líka rétt hjá hv. þm. að sá er hér stendur leggur áherslu á að þessi framkvæmdaáætlun verði endurskoðuð um mitt gildistímabilið og henni verði fylgt eftir með ákveðnum hætti. Ég mun beita mér fyrir því að til þess verði fenginn utanaðkomandi aðili, að framkvæmdin verði a.m.k. í náinni samvinnu við Jafnréttisráð og Jafnréttisstofu og hugsanlega undir stjórn hennar.

Hv. þm. gerði að umtalsefni m.a. kynjahlutfall í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins. Ég tek undir það með hv. þm. að þar er þróun sem er mjög til baga. Það er súrt að sjá að þar skulum við heldur vera á leið í öfuga átt en hitt.

Hæstv. umhvrh. hefur haft þá reglu þegar hún óskar eftir tilnefningum utanaðkomandi aðila í nefndir, stjórnir og ráð á sínum vegum að hún hefur óskað eftir því að tilnefndir verði tveir menn, karl og kona. Ég tel þetta til eftirbreytni og hef raunar tileinkað mér þetta einnig. Ég tel að þetta sé, hæstv. forseti, ágætis dæmi um tiltölulega einfalda aðferð sem geti gagnast okkur til þess að bæta þetta hlutfall vonandi tiltölulega hratt.