Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 20:07:20 (6482)

2004-04-15 20:07:20# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[20:07]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri áætlun í jafnréttismálum sem hér er lögð fram. Ég tel að þarna sé um metnaðarfulla áætlun að ræða. Svo skiptir auðvitað mestu máli að menn fylgi henni eftir og takist á við þau verkefni sem ætlað er að sinna með þessari ágætu jafnréttisáætlun. Hún er skipulega fram sett og með góð markmið þannig að ég held að auðvelt verði fyrir ráðuneyti og stofnanir að vinna eftir áætluninni og beita sér fyrir þeim góðu markmiðum sem þar eru fram sett. Ég, og við sem lengi höfum tekið þátt í umræðu um jafnréttismál, tek undir það með hæstv. félmrh. að kannski þarf að hefja sérstaka kennslu í jafnréttismálum og jafnréttislögum. Það væri áhugavert ef hæstv. félmrh. beitti sér fyrir slíkri kennslu.

Auðvitað verður að bregðast við hinum kynbundna launamun sem við búum við enn þá þó svo að nokkuð hafi ræst úr. Ég held að það sé í rauninni stærsta verkefnið sem við þurfum að glíma við í jafnréttismálunum. Stóra málið sem hefur verið framkvæmt á undanförnum árum hvað það varðar eru fæðingarorlofslögin sem hafa breytt og eru að breyta mjög mikið umræðu um jafnréttismál og sá réttur sem hefur verið færður körlum með þeim lögum hefur breytt mjög mikið afstöðu þeirra til jafnréttismála og reyndar kvenna líka. Í sumum tilfellum hefur þurft að breyta viðhorfum kvenna til jafnréttismála. Ég held að þarna sé komin af stað skriða sem muni leiða til mjög góðs í umræðu um launajafnrétti.

Það hefur verið rakið hér í umræðunum að okkur finnst ganga býsna seint í mörgu. En öll sú umræða sem við efnum til af þessu tilefni, þ.e. að ná fram jafnrétti karla og kvenna, færir okkur fram á veg. Við eigum að halda uppi slíkri umræðu með mjög skörpum hætti. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að auðvitað þarf að gera mun betur, t.d. við skipun í stjórnir og ráð á vegum ríkisins. Við þurfum að íhuga þetta líka á hinum almenna vinnumarkaði, þ.e. stöðu kvenna í stjórnum fyrirtækja og hvernig við getum brugðist við þeim málum. Þetta eru stórmál og hafa öll áhrif í þeirri viðhorfsbreytingu sem er mjög nauðsynleg.

Hér var nefnt kynhlutlaust starfsmat sem hefur verið reynt á nokkrum stöðum. Það er nokkuð sem ég tel að mætti skerpa mjög á. Menn ættu að reyna sig áfram og gera fleiri tilraunir á þessu sviði því það mun færa okkur einhverja bót á launamun karla og kvenna.

Ég vildi líka nefna eitt sem ég tel að hafi verið mjög merkilegt skref í lögunum um jafnan rétt karla og kvenna, þ.e. að þau fyrirtæki sem eru með fleiri en 25 starfsmenn skuli gera jafnréttisáætlanir og fjölskylduáætlanir. Ég held að það hafi verið mjög gott skref að setja þetta inn í lögin. En augljóst er að fylgja þarf því betur eftir að fyrirtæki og stofnanir fari eftir þessu ákvæði. Auðvitað er þörf á að hefja mikla fræðslu til þess að koma þessu hugarfari inn í fyrirtæki. Það gerist ekki nema með stanslausri umræðu og áróðri í því skyni. Þar held ég að hægt sé að ná ágætisárangri. Kannski ætti að færa markið neðar, þetta 25 starfsmanna mark.

Ég vildi einnig nefna að ég tel það mjög gott skref í þáltill. að gefin skuli út jafnréttisgátlisti. Ég hef orðið vör við að sum sveitarfélög hafa gert þetta og eru að vinna að því um þessar mundir. Ég nefni Akureyri í því sambandi. Ég held ég megi segja að þeir séu búnir að samþykkja að allar stofnanir, nefndir og ráð á þeirra vegum hafi jafnan þennan jafnréttisgátlista við höndina við allar sínar ákvarðanir. Ég held að þarna sé tæki til þess að ýta við og minna stöðugt á þá skyldu stofnana, fyrirtækja, nefnda og ráða að hafa ávallt í huga að mönnum ber að vinna eftir jafnréttislögum. Þar eiga menn ekki að gefa neitt eftir.