Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 20:15:12 (6483)

2004-04-15 20:15:12# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[20:15]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur fyrir þátttöku hennar í umræðunni. Ég tek undir með hv. þm. hvað varðar lögin sem sett voru um fæðingar- og foreldraorlof og gildi þeirra fyrir jafnréttismálin. Ég held að það sé hárrétt athugað að þar hafi kannski verið stigið stærsta skref í átt til aukins jafnréttis í samfélagi okkar sem stigin hafa verið.

Ég tek einnig undir með hv. þm. þegar hún talar um nauðsyn þess að fyrirtæki á hinum almenna vinnumarkaði tileinki sér, ekki síður en opinberir aðilar, þau lög sem hér hafa komið til umfjöllunar, þ.e. lög um jafnrétti kynjanna því skyldan hvílir ekkert síður á hinum almenna vinnumarkaði en hinum opinbera. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni og getið er um í áætluninni er ástæða til þess að fylgja því eftir sérstaklega, að fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn setji sér jafnréttisáætlanir og mér finnst koma vel til greina að það verði gert með alveg sérstökum og reglubundnum hætti.