Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 20:26:16 (6486)

2004-04-15 20:26:16# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[20:26]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka þingheimi þær jákvæðu undirtektir sem mér finnst framkvæmdaáætlunin í jafnréttismálum fá við fyrri umræðu.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vék að nokkrum atriðum sem rétt er að ég svari. Í fyrsta lagi spurði hv. þm. um afdrif könnunarinnar sem varð að nokkru umtalsefni milli okkar hv. þm. á haustdögum og hvort þar hefði verið um að ræða þá könnun sem forsrn., félmrn. og fleiri aðilar stóðu að og kynntu í vetur. Svarið við því er já. Það var sú könnun sem ég var að vitna til.

Ég tek undir með hv. þm. þegar kemur að umræðunni um launamun kynjanna. Ég tel, hæstv. forseti, að það sé eitt almikilvægasta verkefni okkar í jafnréttismálum á næstu missirum. Það er að mínu viti óþolandi að enn skuli vera til staðar óútskýrður og óútskýranlegur launamunur milli kynjanna og í sumum tilvikum, eins og ég veit að hv. þm. hefur meðal annarra vakið athygli á, er munurinn kerfislægur. Ekki beinlínis viljandi, hæstv. forseti, heldur liggur hann innifalinn í uppbyggingu og launastrúktúr fyrirtækja og stofnana.

Ég hef sagt það, hæstv. forseti, að það hljóti að vera tiltölulega hæg heimatökin hvað varðar hið opinbera, því út af fyrir sig má segja að allar stofnanir ríkisins heyri undir tólf menn og konur, þ.e. ráðherra í ríkisstjórninni. Það er vilji ríkisstjórnarinnar að taka á þessum launamun og það munum við gera á því kjörtímabili sem fram undan er eins og lýst er í áætluninni.

Hv. þm. spurði líka hvort sá er hér stendur hefði á móti því ef um það tækist samstaða í félmn. að skerpa frekar á því en gert er í áætluninni að fræðsla í jafnréttismálum nái upp í topp. Hæstv. forseti. Svar mitt við því er einfalt: Nei, ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti því. Ég tel eins og ég sagði áðan fulla ástæðu til þess að fræðslan nái upp í topp (ÖJ: Bjóða upp á sérkennslu?) Ég tel ekki, hv. þm., að einn þurfi frekar kennslu en annar, en ég tel hins vegar mjög mikilvægt að þessi fræðsla eigi sér stað alls staðar í samfélaginu, ekkert síður gagnvart ráðherrum í ríkisstjórn en öðrum og lýsi hér með jákvæðum huga til þeirrar hugmyndar.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi eitt enn sem ég vil koma inn á og það varðar fræðsluna um jafnréttismálin sömuleiðis sem getið er um í 3. tölul. þáltill., að þátttakendur í því verkefni verði öll ráðuneytin og Reykjavíkurborg. Hv. þm. spyr: Af hverju Reykjavíkurborg? Kannski er von að spurt sé um það því ekki kemur fram með skýrum hætti í þeim texta sem liggur fyrir hver hugsunin er þarna að baki, en hún er einmitt sú að Reykjavíkurborg þykir hafa náð góðum árangri á þessu sviði. Þar liggur því hundurinn grafinn. Við teljum ástæðu til þess að leita í þann reynslubrunn sem er að finna hjá borginni og þess vegna er gert ráð fyrir þátttöku hennar í þessu verkefni.

Hæstv. forseti. Ég vil ekki orðlengja umræðuna frekar. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanna fyrir jákvæðar undirtektir og ítreka tillögu mína um að þessari þáltill. verði vísað til hv. félmn. og síðari umræðu.