Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 20:34:49 (6489)

2004-04-15 20:34:49# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[20:34]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Við lok þessarar umræðu sé ég ástæðu til að þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hans og framlag til umræðunnar. Ég fagna því hvað hæstv. ráðherra hefur verið opinn og jákvæður fyrir því að unnið verði í félmn. að breytingum til að gera þessa tillögu skarpari og markvissari. Hefur hann m.a. tekið undir það að við skoðum í sambandi við jafnréttisumsagnir hvort ekki verði hægt að ganga hraðar til verks í því efni. Því fagna ég ákaflega. Ég held að það muni greiða mjög fyrir störfum í félmn. að hafa þessi jákvæðu viðbrögð hæstv. félmrh. að veganesti í þeirri vinnu okkar sem fram undan er við að skoða og yfirfara tillöguna.

Ég fagna sérstaklega því sem hæstv. ráðherra sagði áðan um að hann hefði svo sannarlega ekkert á móti því að við næðum því fram í nefndinni að sett yrði ákvæði inn í þessa tillögu hjá öllum ráðuneytum um að ráðherrar gangist undir jafnréttisfræðslu og að farið verði vel og vandlega yfir jafnréttislögin, jafnréttisáætlanir og framkvæmdaáætlanirnar með ráðherrunum sjálfum. Eins og ég nefndi og hæstv. ráðherra gerði einnig var sú leið farin í Svíþjóð með frábærlega góðum árangri. Ráðherrar þar sýndu miklu meiri skilning á jafnréttismálunum eftir að þeir höfðu fengið slíka fræðslu. Ég vona að við náum samstöðu um það í félmn. að setja slíkt ákvæði inn.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir undirtektir hans á því að við náum fram þeirri breytingu í félmn.