Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:35:56 (6546)

2004-04-16 14:35:56# 130. lþ. 100.94 fundur 485#B fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Hér er verið að hreyfa við mjög mikilsverðu máli, þ.e. fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Ef vel á að vera þarf að vera jafnvægi á milli tekna og gjalda sveitarfélaga.

Nú er það svo að ríkið ákvarðar að miklu leyti heimildir sem sveitarfélög hafa til að afla sér tekna og að sama skapi leggja löggjafinn og framkvæmdarvaldið á herðar sveitarfélaganna verkefni og skyldur sem kalla á útgjöld. Ég tel það einfaldlega nútímalega stjórnsýslu að meta hvort kostnaður sveitarfélaga eykst eða minnkar, og hversu mikið þá, við breytingar á lögum og reglugerðum. Í raun er annað óábyrgt, að gera auknar kröfur um kostnað án þess að gera minnstu tilraun til að meta áhrif þeirra á fjárhag sveitarfélaganna.

Ég var staddur fyrir skömmu á opnum borgarafundi á Sauðárkróki með fulltrúum sveitarfélagsins en þar kom fram að tilfærsla grunnskólans til sveitarfélaganna hafi verið miklu kostnaðarsamari en hinir miklu fjármunir sem fylgdu verkefninu hljóðuðu upp á. Hvað varðar fullyrðingar hæstv. ráðherra áðan í umræðunni um að ríflegir fjármunir hefðu fylgt verkefninu rímar það ekki við það sem fulltrúi hans flokks fór með, þær tölur sem hann fór með á þeim fundi. Það væri mjög áhugavert að fá að heyra hér hjá hæstv. ráðherra til hvaða athugana hann er að vísa. Að tala um niðurlægjandi tal þegar verið er að ræða um þessi samskipti sveitarfélaganna --- ég hefði talið miklu nær að taka þessa umræðu út frá jákvæðari sjónarhóli og leitast við að finna lausn á því hvernig við eigum að haga þessum samskiptum.

Eins og áður segir hafa ákvarðanir ríkisvaldsins einnig áhrif á tekjuhlið sveitarfélaganna en nýlega kom fram hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að sveitarfélög landsins hefðu orðið af einum milljarði í tekjum vegna gríðarlegrar fjölgunar einkahlutafélaga. Í framhaldi af þessari þróun vil ég spyrja hæstv. fjmrh. sem hefur verið ófeiminn við að hækka álögur á landsmenn, nú síðast var það þungaskatturinn, hvort hann hafi séð þetta tekjutap sveitarfélaganna fyrir og hvort hann hyggist bæta sveitarfélögunum það.