Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:46:59 (6551)

2004-04-16 14:46:59# 130. lþ. 100.94 fundur 485#B fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. fjmrh. var að lýsa boði um samstarf til handa stjórnarandstöðunni. Félmrn. skipaði nefnd sl. haust til að undirbúa og leggja fram tillögur um breytta skipan á verkaskiptingu sveitarfélaga. Þingflokkur Frjálsl. taldi mjög mikilvægt að fá að taka þátt í þeirri undirbúningsvinnu og breyttri skipan sveitarfélaganna og að allir þingflokkar fengju að koma þar að með viðhorf sín og í samstarfi á jafnréttisgrundvelli, m.a. með atkvæðisrétti fyrir fulltrúa sinn. Þessu var hafnað af félmrn. og það er kannski þess vegna sem hæstv. félmrh. tók á sprett og rauk á dyr þegar farið var að ræða þessi mál af því að hann hefur átt von á að við kæmum eitthvað inn á þetta.

Það er einfaldlega þannig að Vinstri grænir og Frjálsl. eiga ekki aðild að nefndinni. Þeim var ekki boðið það á jafnréttisgrundvelli og við teljum að það sé óvirðing við flokka sem starfa á hv. Alþingi og óvirðing við kjósendur okkar. Ég fagna því þess vegna ef til stendur að stofna til nýs samstarfsvettvangs sem hæstv. fjmrh. var að opna fyrir áðan og tek því fegins hendi og það liggur fyrir samþykki mitt að starfa í þeim hópi ásamt fulltrúa ráðuneytisins.