Lyfjalög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:55:54 (6555)

2004-04-16 14:55:54# 130. lþ. 100.2 fundur 880. mál: #A lyfjalög# (lyfjaverð og greiðsluþátttaka almannatrygginga) frv. 83/2004, heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[14:55]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Helsta breytingin sem frv. felur í sér varðar ákvörðun lyfjaverðs og greiðsluþátttöku almannatrygginga. Síaukinn lyfjakostnaður landsmanna hefur beint sjónum manna að því skipulagi sem hér er við lýði samkvæmt gildandi lögum. Lyfjaverðsnefnd ákveður hámarksverð lyfja en greiðsluþátttökunefnd ákveður greiðsluþátttöku almannatrygginga í nýjum lyfjum. Bent hefur verið á að þessar nefndir séu ekki nægilega tengdar hvor annarri og nokkuð skorti á samræmingu í störfum þeirra. Því er lagt til að umræddar nefndir verði sameinaðar í eina nefnd, svokallaða lyfjagreiðslunefnd. Markmiðið með þessum breytingum er að sameina verkefni og fækka aðilum sem fjalla um verðákvarðanir lyfja og auka með því samhæfingu þeirra og skilvirkni með það fyrir augum að betri heildaryfirsýn fáist í þessum málaflokki.

Ákvæði 9.--12. gr. frv. eru byggð á ákvæðum núgildandi laga sem fjalla um hlutverk og skipan lyfjaverðsnefndar og greiðsluþátttökunefndar. Þær breytingar felast þó í frv. að lyfjagreiðslunefnd er ætlað að fjalla um greiðsluþátttöku í öllum lyfjum en ekki eingöngu í lyfjum með nýjum virkum innihaldsefnum sem ekki hafa verið á markaði áður eins og greiðsluþátttökunefnd gerir í dag. Þá er nefndinni ætlað það nýja hlutverk að fjalla um svokallað greiðsluþátttökuverð, þ.e. það verð sem almannatryggingar miða greiðsluþátttöku sína við. Þá er lagt til að ráðherra geti með reglugerð kveðið á um að verðákvarðanir nefndarinnar skuli byggðar á verði í tilteknum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að starfsmaður lyfjaverðsnefndar og starfsmaður greiðsluþátttökunefndar verði starfsmenn hinnar nýju lyfjagreiðslunefndar og að það fé sem nú er varið til greiðslu nefndarlauna í nefndunum tveimur verði nýtt í starfsemi hinnar nýju nefndar. Auk þess er talið nauðsynlegt að styrkja starfsemi nefndarinnar enn frekar með því að bæta við einum starfsmanni og er gert ráð fyrir að veitt verði aukið fé til nefndarinnar í þeim tilgangi.

Aðrar breytingar sem frv. felur í sér eru m.a. þær að í 2. gr. frv. er að finna gjaldtökuheimild fyrir Lyfjastofnun vegna mats á stöðluðum forskriftum og í 5. gr. frv. er að finna nýmæli sem felur í sér heimild til Lyfjastofnunar á grundvelli heilbrigðissjónarmiða til að gefa út markaðsleyfi fyrir lyf sem hefur verið afskráð.

Í ræðu minni hef ég farið yfir helstu efnisþætti frv. laga til breytinga á lyfjalögum og markmið með þeim breytingum. Veigamesta breytingin felst í sameiningu lyfjaverðsnefndar og greiðsluþátttökunefndar í eina nefnd, lyfjagreiðslunefnd. Hin nýja nefnd mun fjalla um verð allra lyfseðilsskyldra lyfja, greiðsluþátttöku almannatrygginga í lyfjakostnaði og greiðsluþátttökuverð.

Ég bind miklar vonir við að þessi ráðstöfun verði til þess að meiri skilvirkni og betri yfirsýn náist í þessum málaflokki.

Virðulegi forseti. Ríkisendurskoðun gaf nýlega út merka skýrslu um lyfjamál þar sem m.a. er komist að þeirri niðurstöðu að lyfjakostnaður á hvern landsmann hér á landi sé um 46% hærri að meðaltali en í Danmörku og Noregi. Einnig er komist að þeirri niðurstöðu að ef lyfjakostnaður hérlendis yrði hlutfallslega sá sami og í Danmörku og Noregi hefði hann lækkað um 4,4 milljarða kr. árið 2003. Í skýrslunni er að finna margar ábendingar sem sumar hafa verið til athugunar í ráðuneytinu eða komið til framkvæmda eins og menn hafa orðið varir við undanfarna daga og aðrar ábendingar sem munu án efa koma til álita við heildarendurskoðun málaflokksins sem ætlunin er að ráðast í á næstu mánuðum og missirum.

Þær aðgerðir sem ég hef þegar kynnt til að ná fram 450 millj. kr. sparnaðarkröfu fjárlaga í lyfjaútgjöldum TR felast í stórum dráttum í tvennu:

1. Almennri verðlækkun lyfja sem kemur bæði almenningi og hinu opinbera til góða.

2. Aðgerðum sem beina vali lyfja í þremur kostnaðarsömustu lyfjaflokkunum í hagkvæmari lyf af jafngildum en þó miðstýrðum kostum.

Auðvitað hefði verið hægt að fara þá leið að lækka lyfjakostnað ríkisins og auka um leið hlut sjúklings. Það gerum við ekki með þessum aðgerðum. Ætlum við að tryggja að sjúklingar eigi alltaf kost á lyfi sem hækkar ekki. Í þeim undantekningartilvikum þar sem sjúklingur á erfitt með að nota einstök lyf, t.d. vegna ofnæmis, getur læknir viðkomandi einstaklings sótt um undanþágu frá viðmiðunarverði með læknisfræðilegum rökstuðningi.

Ég tek það fram að Lyfjastofnun, Tryggingastofnun ríkisins og síðast en ekki síst landlæknir, allir þessir aðilar telja að þessi aðgerð sé faglega verjandi fyrir sjúklinginn. Það ber að hugsa um velferð sjúklingsins en ekki lyfjafyrirtækjanna. Öll sú ráðgjöf sem ég hef fengið á undanförnum mánuðum hefur verið á faglegum forsendum þar sem það hefur verið haft að leiðarljósi að ná niður lyfjakostnaði landsmanna án þess að auka kostnaðarhlutdeild sjúklingsins.

Eitt af því sem Ríkisendurskoðun bendir á í skýrslu sinni er, með leyfi forseta:

,,Að endurmeta þurfi hlutverk þeirra opinberu aðila sem stjórna og hafa eftirlit með lyfjamálum með það fyrir augum að færa verkefni á færri hendur.``

Sameining lyfjaverðsnefndar og greiðsluþátttökunefndar má líta á sem fyrsta skref í að einfalda og styrkja stjórnsýslu þessa málaflokks. Ég tel mikilvægt að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trmn. og til 2. umr.