Fyrirætlan þingmeirihlutans um afgreiðslu mála

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:03:50 (6718)

2004-04-26 15:03:50# 130. lþ. 102.1 fundur 497#B fyrirætlan þingmeirihlutans um afgreiðslu mála# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Samkvæmt starfsáætlun Alþingis fyrir árið 2003--2004 var þingfrestun fyrirhuguð föstudaginn 7. maí nk. Þannig eru ekki nema níu reglulegir fundardagar Alþingis eftir með þessum sem nú er að líða og þingfrestunardeginum þar sem miðvikudaginn 5. maí var fyrirhugað eða er áformað að hafa eldhúsdag.

Nú hafa borist af því fréttir að hæstv. ríkisstjórn hyggist enn leggja mál og sum stór og nafntoguð fyrir þingið, auðvitað löngu eftir að frestir til slíks eru útrunnir sem var hinn 1. apríl sl. Ég tel eðlilegt við þessar aðstæður að inna hæstv. forsrh. eftir því hver séu nú áform ríkisstjórnarinnar um þingfrestun í ljósi þeirra mála sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að fá afgreidd. Það er ákaflega bagalegt fyrir menn að löngu samþykkt starfsáætlun raskist mikið. Að vísu geri ég ráð fyrir að lífsreyndir menn á þessum bæ hafi gjarnan gert ráð fyrir eins og einni viku í viðbót við það sem áformað hafði verið en mér sýnist margt benda til að það gæti stefnt í umtalsverða röskun á starfsáætlun. Nú er það að sjálfsögðu ekki ríkisstjórnarinnar sem slíkrar, heldur Alþingis að ákveða um störf sín en okkur er öllum ljóst að ríkisstjórnin og vilji hennar hvað varðar það að fá héðan afgreidd mál hefur þar mikil áhrif á.

Ég spyr hæstv. forsrh. hvað hann geti upplýst þingheim um áform ríkisstjórnarinnar að þessu leyti og hvort þess sé að vænta að á allra næstu dögum skýrist um forgangslista þeirra mála sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að fá afgreidd.