2004-04-26 17:02:17# 130. lþ. 102.26 fundur 950. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2004# þál. 20/130, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[17:02]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Í gegnum tíðina hefur verið góð samstaða á Alþingi um samninga við Færeyinga um gagnkvæmar veiðar. Þó að stundum hafi borið við að einhverjir hafi mótmælt þeim samningum hef ég og ég held flestir á hv. Alþingi verið nokkuð sammála um þá samninga. Það er engin undantekning á því hvað þennan samning varðar, sýnist mér. Mér finnst hins vegar ástæða til að árétta það sem ég hef sagt áður um samninga við önnur lönd, mér finnst að menn þurfi að hugsa þá sem breytilega samninga. Það er alveg augljóst að það eru verulegar breytingar búnar að vera, og verða jafnvel enn þá meiri á næstu árum, á því lífríki sem um er að ræða á hafsvæðunum í kringum landið. Menn verða að líta á þessi mál út frá þeim sjónarmiðum að það sé okkar landhelgi og nýting fiskstofnanna í landhelgi okkar sem sé grunnurinn í því fyrst og fremst hvernig svona samningar eru og verða til framtíðar. Það hlýtur að verða breytilegt í gegnum tíðina. Menn mega ekki sitja uppi með það, kannski eftir tiltölulega fá ár, að einhverjum einstökum fiskstofni sé skipt vegna veiða með tilliti til einhvers konar forsögu sem er löngu liðin tíð og hefur kannski ekki almennilegan grunn að byggja á inn í framtíðina. Mér finnst að það verði að vera hægt að breyta, ná samkomulagi milli þjóða um nýtingu, sem byggist fyrst og fremst á því að meta það lífríki sem hver og einn ræður yfir á hverjum tíma. Og það getur breyst.

Ef ég skildi rétt var verið að tala um lúðuna áðan og hæstv. ráðherra svaraði því til að hann teldi að leyft væri að veiða um 70 tonn af lúðu. Ég bið um nánari skýringu á því hvort þetta er svona eða hvort grálúðan er inni í þessari tölu líka. Er henni ekki úthlutað samkvæmt einhverjum viðbótartilfæringum í ráðuneytinu? Ég bið um staðfestingu á þessu.

Síðan langar mig til að biðja hæstv. ráðherra að upplýsa nokkuð í ljósi þess að hér hafa menn verið að setja fram hugmyndir um að aflétta þeim kvöðum sem hafa verið á Íslendingum um að landa afla hér heima til vinnslu og meðferðar þannig að núna geti þeir frekar siglt með hann beint af miðunum. Mér finnst það orðalag sem kemur fram í athugasemdunum og ég vil vitna í svolítið á skjön við sjónarmið sem eru komin upp, a.m.k. gagnvart Íslendingum sjálfum. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Er eins og áður við það miðað að veiðiheimildir færeyskra nótaskipa`` --- þá er verið að tala um loðnuna --- ,,á þessu tímabili verði um 30 þúsund lestir enda breytist forsendur varðandi leyfðan heildarafla og önnur atriði er máli skipta ekki í verulegum atriðum.`` Svo kemur:

,,Gert er ráð fyrir því að heimilt sé að landa aflanum til vinnslu á Íslandi, en að óheimilt sé að vinna eða frysta afla sem veiddur er á tímabilinu janúar til apríl um borð og að utan Íslands sé einungis heimilt að landa þeim afla til bræðslu.``

Ég set við þetta spurningarmerki. Höfum við þau áhrif á þær veiðar sem Færeyingar mega stunda í landhelgi okkar að ekki megi nýta þann afla á sem hagkvæmastan og bestan hátt? Mér finnst það og ég spyr hvort það séu ekki skringileg skilaboð frá okkur sem tölum alltaf um að það eigi að reyna að ná hámarksnýtingu og hámarksgæðum úr þeim afla sem okkar skip veiða og við viljum, held ég öll, stuðla að því að það sé gert. Ég bið hæstv. ráðherra að útskýra nánar þetta orðalag og ég spyr hvort ekki hafi orðið umræða um þetta milli þeirra sem um málið fjölluðu. Er þetta orðað svona vegna þess að Færeyingar hafi haft áhuga og vilja til þess að ráðstafa þessum afla eitthvað öðruvísi en hér er talað um að eigi að gera? Hafa þeir á því möguleika og hafa þeir þá sett fram vilja sinn til að gera það? Hvers vegna hafa menn þá ekki viljað koma til móts við þann vilja? Hvaða hætta felst í því? Mér finnst, eins og ég sagði áðan, að við eigum ævinlega að reyna að stuðla að því að þessar auðlindir sem við erum að fjalla um séu nýttar sem allra best og það á líka við þegar um er að ræða nýtingu annarra á auðlindum sem við eigum hlut að.

Að öðru leyti ætla ég ekki að úttala mig um þetta. Ég tel að þessir samningar við Færeyinga hafi verið ágætir og það hafi verið mikil samstaða um að vera í góðu samkomulagi við Færeyinga. Þeir hafa líka verið okkur mikilvægir í þeim samningum sem menn hafa þurft að gera við aðra. Það er ekki eins og ég sé að setja út á samningana hér en vil helst fá þessar skýringar sem ég er að óska eftir.