Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 18:00:25 (6783)

2004-04-26 18:00:25# 130. lþ. 102.28 fundur 960. mál: #A Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað# (heildarlög) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[18:00]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka ágætar ábendingar og spurningar. Þetta eru allt álitamál sem menn þurfa að velta fyrir sér og eðlilegt að þau komi upp þegar um slíkt mál er rætt.

Svo ég víki fyrst að erlendu tungumálunum, hvaða tilvik það eru, þá held ég að í þessu samhengi séum við fyrst og fremst að tala um mjög tæknilega alþjóðasamninga eða EES-reglur sem eru mjög tæknilegar. Um það eru til dæmi og hv. þm. getur kynnt sér þau, að samþykkt hafi verið að íslenska ekki slíkar reglur, alls konar kóða og sérfræðireglur sem eru, eins og þarna segir, fyrir mjög sérhæfðan hóp fólks sem sinnir ákveðnu sviði við framkvæmd á alþjóðasamningum og ljóst er að yrði ofætlan að íslenska. Slíka texta þarf í sjálfu sér ekki að íslenska þegar litið er til þess verkefnis sem um er að ræða.

Þetta er undantekningarákvæði og ber að túlka það á þann veg og líta til þeirra fordæma sem við höfum. En það mundi auðvelda í ýmsum tæknilegum úrlausnarefnum að nota við þetta alþjóðlegt tungumál. Yfirleitt er miðað við ensku, ef ég skil það rétt. Allir samningar eru gerðir á ensku og frönsku og hér mundu menn væntanlega velja ensku. Við vitum að það er það mál sem menn nota í ýmsum greinum í tengslum við tæknileg úrlausnarefni og slík viðfangsefni. Fyrir þessu eru nú þegar til ákveðin fordæmi en þetta ákvæði ber að sjálfsögðu að skýra með fullri virðingu fyrir íslenskri tungu, að hún er ráðandi tunga þegar staðið er að útgáfu á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.

Varðandi það sem sagt var um bókasöfnin og aðgang almennings að því sem sett er inn á þennan vef á prentuðu formi þá tel ég að það verði auðveldast fyrir þau söfn, eins og alla aðra sem hafa aðgang að upplýsingatækninni og tækjabúnaði, að fara inn á netið þegar um er beðið. Þessir aðilar gætu prentað út fyrir það fólk sem kemur á staðinn og það verður sú leið sem flestir munu fara. Eins og fram kemur í greinargerðinni og því sem menn eru að velta fyrir sér þá er það svo að hér á landi hefur langstærstur hluti þjóðarinnar aðgang að þessari tækni heima hjá sér eða annars staðar. Þeir sem ekki hafa aðgang að tækninni geta hæglega farið á söfn og fengið útprentun þar. Ég tel víst að söfnin mundu velja þann kost að hafa gögnin sem mest í rafrænu formi hjá sér og prenta út fyrir þá sem heimsækja söfnin og vilja fá upplýsingar í prentuðu formi.

Varðandi gjaldtökuna þá vek ég athygli á því að það sem segir um gjaldtökuna í frv. er að finna í 2 mgr. 7. gr., ef ég má lesa hana, með leyfi forseta:

,,Haga skal útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs þannig að vél- og hugbúnaður sem flestra nýtist. Verði útgáfa Stjórnartíðinda eða Lögbirtingablaðs eingöngu rafræn skulu þeir sem þess óska geta keypt Stjórnartíðindi eða Lögbirtingablað í prentuðu formi í áskrift eða fengið einstök tölublöð send gegn greiðslu kostnaðar af prentun þeirra og sendingu. Fyrir rafrænan aðgang að Lögbirtingablaði skal greiða gjald samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs.``

Gert er ráð fyrir því að greitt verði gjald fyrir rafrænan aðgang að Lögbirtingablaði. Það er ekki sambærilegt ákvæði um Stjórnartíðindi í frv. Þess vegna eru menn að velta fyrir sér með persónuverndina. Svo ég lesi enn, með leyfi forseta, upp úr greinargerð frv.:

,,Að því er varðar rafræna útgáfu Lögbirtingablaðs koma nokkur fleiri atriði til skoðunar. Við rafræna útgáfu Lögbirtingablaðs þarf þannig að gæta reglna um persónuvernd, en þær upplýsingar sem birtast í Lögbirtingablaði kunna að teljast viðkvæmar í skilningi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, með síðari breytingum. Einnig þarf við útgáfu Lögbirtingablaðs að tryggja að tiltekin útgáfa verði aðgengileg öllum á sama tíma, enda kunna í Lögbirtingablaði að birtast auglýsingar sem hafa þýðingu fyrir samkeppnisstöðu manna, t.d. auglýsingar um sölu eigna, útboð eða stöður.``

Þarna er um það að ræða að menn gera því skóna, og þess vegna er gjaldtakan sérstaklega tiltekin varðandi Lögbirtingablaðið, að þar birtist upplýsingar sem verði aðgengilegri fleira fólki en nú er, miðað við þá litlu útbreiðslu sem er á Lögbirtingablaðinu. Eftir að blaðið kemur inn á netið er talið að það sé eðlilegt að menn greiði fyrir aðgang að þeim upplýsingum, m.a. með hliðsjón af persónuvernd. Í blaðinu er fjallað um gjaldþrot og aðra hluti sem snerta mjög persónulega hagi manna. Talið er eðlilegt að þegar menn ætla að kynna sér slíkt, eins og nú er --- nú þurfa menn að vera áskrifendur að Lögbirtingablaðinu og fá það sent --- sé eðlilegt að menn greiði fyrir aðgang að slíkum upplýsingum. Lögbirtingablaðið er allt annars eðlis en Stjórnartíðindin.

Ég tel mjög málefnaleg rök fyrir þessu og að það sé ekki níðst á neinum með þessum hætti, sé litið til áskrifendafjölda Lögbirtingablaðsins og þeirra sem nýta sér þær upplýsingar. Í þessu felst líka viðleitni til að veita persónuvernd. Ég sé ekki annað þegar menn velta þessu fyrir sér en að þeir ættu að sjá að fyrir þessu eru góð málefnaleg rök, að hafa þetta með þessum hætti. Auk þess skapast af þessu tekjur til ríkissjóðs sem er ekkert óeðlilegt að menn hugi að þegar þetta er skoðað.

Ég ætla ekki að fjalla um þessa kostnaðarumsögn. Mér finnst eðlilegt að nefndin fari yfir hana og kalli þá sérfræðinga til sem hafa reiknað kostnaðinn út. Ég hef ekki reiknað þetta út en finnst eðlilegt að menn líti til þeirra þátta þegar kemur að nefndarstarfi.