Dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 18:15:59 (6789)

2004-04-26 18:15:59# 130. lþ. 102.29 fundur 840. mál: #A dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr# (Vestmannaeyjabær) frv. 49/2004, Frsm. DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[18:15]

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, með síðari breytingum, frá landbn.

1. gr.

Við 14. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna bætist: Vestmannaeyjabær.

2. gr.

Við 15. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna bætist: og Vestmannaeyjabær.

Herra forseti. Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að gera nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, með síðari breytingum. Þau mistök urðu við setningu laganna á sínum tíma að Vestmannaeyjabær er hvorki tilgreindur í ákvæði 11. gr. um skipan héraðslæknaumdæma sem ætlað er að ná yfir allt landið né í ákvæði 12. gr. um vaktsvæði dýralækna. Með frumvarpinu er lagt til að Vestmannaeyjabær heyri undir umdæmi héraðsdýralæknis í Suðurlandsumdæmi, sbr. 14. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna, en það er eðlileg ráðstöfun miðað við legu Vestmannaeyja. Þá er einnig lagt til að vaktsvæði dýralæknis Árnessýslu nái yfir Vestmannaeyjabæ.

Herra forseti. Þar sem málið er lagt fram af hv. landbn. er ekki gerð tillaga um að vísa málinu til nefndar.