Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 15:08:17 (6975)

2004-04-28 15:08:17# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Aldrei í Íslandssögunni hefur meiri gróska og fjölbreytni verið í fjölmiðlun á Íslandi. Um það hefur hæstv. félmrh. ekkert dæmi getað nefnt. Hæstv. félmrh. gat ekki bent á neitt málsvæði í víðri veröld af okkar stærðargráðu nokkru sinni í mannkynssögunni þar sem fjölmiðlun væri fjölbreyttari eða gróskumeiri. Og það er einmitt mergurinn málsins. Þessi málatilbúnaður stendur ekki á neinu.

Fjölbreytni í eignarhaldi segir hæstv. ráðherra. Hvað er það sem hefur tryggt okkur þessa fjölbreytni? Það er að markaðsráðandi aðilar m.a. hafa treyst sér til að fjárfesta í þessum iðnaði og í þessari atvinnugrein og það verulega og vegna þeirrar fjárfestingar er fjölbreytni meiri en ætla mætti um 300 þúsund manna málsvæði hvar í heiminum sem er. Og ef menn nú ætla að kippa þeirri fjármögnun (Forseti hringir.) undan fjölmiðlunum með því að banna markaðsráðandi fyrirtækjum að leggja fé í starfsgreinina er augljóst, hæstv. forseti, að það mun bitna á (Forseti hringir.) fjölbreytileika enda er það markmið ríkisstjórnarinnar.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn að virða tímamörk.)