Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 15:12:19 (6978)

2004-04-28 15:12:19# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Athyglisvert er að það virðist vera álit hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að hlutverk fjölmiðla sé að fara fram með háði og spotti. Ég hélt satt best að segja að það væri hlutverk fréttastofu að segja fréttir en látum það liggja á milli hluta, hæstv. forseti.

Ég hef ekki haldið því fram í máli mínu að fréttamenn, hvort sem er á ríkisfjölmiðlunum eða öðrum fjölmiðlum, hafi verið beittir þvingunum. Það sem hér er um að ræða er umræða um frv. sem lagt hefur verið fram á Alþingi til þess að tryggja fjölbreytni í rekstri fjölmiðla, til þess að tryggja sjálfstæði fréttamanna, til þess að tryggja að markaðsráðandi aðili hafi ekki sömuleiðis markaðsráðandi stöðu í fjölmiðlum. Það er það sem ég hef sagt hér, hæstv. forseti.