Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:49:46 (7022)

2004-04-28 18:49:46# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:49]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Ég heyri glerhallir hrynja þegar hæstv. dómsmrh. talar um skrif á netið. En nóg um það. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það. Hins vegar langar mig til að heyra svolítið um röksemdafærslu hans sem gengur út á fjölbreytni, að tryggja þurfi fjölbreytni í fjölmiðlum á Íslandi með lagasetningu sem mun leiða til þess að fjársterkir aðilar munu ekki eiga möguleika á því að fjárfesta í fjölmiðlum einmitt til að tryggja fjölbreytni og grósku í íslenskum fjölmiðlum. Ég næ þessu ekki. Ég er gamall fjölmiðlamaður eins og hæstv. dómsmrh. og veit að það er mjög dýrt að reka fjölmiðla og mjög dýrt að stofna fjölmiðla. Hann veit það líka, ég er ekki í nokkrum vafa um það.