Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:59:42 (7029)

2004-04-28 18:59:42# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:59]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. virðist ekki átta sig á því að frv. og það sem við erum að fjalla um á grundvelli skýrslunnar snertir ekki dagblöðin þannig að ekki er verið að fjalla um þau. Verið er að fjalla um ljósvakamiðlana og um þær ályktanir sem menn hafa dregið af skýrslunni varðandi þá. Ég spyr enn um það sem ég hef áður sagt í umræðunum og hef ekki fengið svar frá Samf.: Hverra hagsmuna er Samf. að gæta í þessu? Hverra hagsmuna er hún að gæta þegar hún er að velta því fyrir sér að setja sérstakar reglur og lög um inngrip í ritstjórnir fjölmiðlanna? Af hverju tekur hún ekki mið af því sem eigandi Baugs, Jón Ásgeir Jóhannesson, setti fram í Morgunblaðinu? Var þar kveikjan að þeim reglum sem Samf. vill lögfesta um innra starf fjölmiðlanna? Hann sagðist geta sett þessar reglur. Af hverju stuðla menn ekki að því að þær reglur séu settar? Hann skrifaði grein í Morgunblaðið og sagði að hægt væri að setja upp eitthvert ráð sem tæki að sér að líta til þess hvernig innra starf fjölmiðlanna væri. Var þetta kveikjan að því að Samf. flutti þá tillögu sem hún hefur flutt í þinginu?

En þegar kemur að eignaraðildinni sem er meginkjarninn í skýrslu nefndarinnar, þrátt fyrir að formaður Samf. hafi talað á þann veg að skapa þurfi betri tæki fyrir Samkeppnisstofnun og þrátt fyrir að formaður þingflokks Samf. hafi sagt á þingi 19. nóvember sl. að það þyrfti að sjálfsögðu að huga að eignarhaldinu og samþjöppun á því, er Samf. nú í þeim stellingum sem við erum vitni að og svarar ekki þeim spurningum sem ég legg fyrir hana.