Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 11:44:29 (7128)

2004-04-29 11:44:29# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[11:44]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja út í 13. gr., en þar kemur fram að yfirvöldum er ætlað að staðfesta að um skyldleika sé að ræða. Það gæti reynst býsna erfitt og kostnaðarsamt að nota lífsýni til að sanna skyldleika, þótt aftur á móti megi á tiltölulega einfaldan hátt útiloka skyldleika. Sönnun á skyldleika byggir á líkum. Til þess að hægt sé að sanna með tilteknum líkum að um skyldleika sé að ræða þarf breytileiki erfðamarka að vera þekktur í stofni, þ.e. hjá þeirri þjóð eða þjóðarbroti sem útlendingur er af. Til að útiloka skyldleika dugir aftur á móti aðeins að sýna fram á að nokkur erfðamörk séu ólík, t.d. í barni og meintum foreldrum. Þannig virka t.d. faðernispróf ef greina á milli nokkurra mögulegra feðra. Maður útilokar einfaldlega alla nema einn. Við sönnum hins vegar ekki hver faðirinn er. Fram kom í starfi nefndarinnar að orðalaginu ætti a.m.k. að breyta. Ég vil því spyrja hv. form. allshn. hvort ekki sé rétt að breyta þessu á milli 2. og 3. umr. og koma þessu í rétt horf.