Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 12:00:36 (7139)

2004-04-29 12:00:36# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[12:00]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég trúi því varla að ég skilji hv. þm. rétt, að hún leggi til að við höfum engan sjálfstæðan rétt í þessum lögum fyrir maka til að krefjast dvalarleyfis hér á landi eða sækja um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, þ.e. á grundvelli hjónabands. Skil ég hv. þm. rétt, að hún telji enga ástæðu til að hafa í lögum slíkan sjálfstæðan rétt?

Spurt er: Hvers vegna ekki að hafa almenn ákvæði í sérlögum um þessi atriði, um nauðungarhjónabönd og annað þess háttar? Það er einfaldlega þannig að alþjóðleg glæpasamtök, skipulögð glæpasamtök, leita uppi glufur í löggjöf ríkja til að ná fram vilja sínum. Það er staðreynd og dapurlegt ef þeir sem taka þessa grein til skoðunar eru ekki tilbúnir til þess að horfast í augu við það. Að sjálfsögðu er þessu ákvæði sérstaklega beint gegn slíkum aðilum.

Ég spyr: Hvaðan fá þeir sem hér hafa komið upp og gagnrýnt þessa reglu ástæðu til að ætla það að ákvæðinu verði misbeitt sérstaklega til þess að koma í veg fyrir fjölskyldusameiningar? Alls staðar í þessu frv. ættu menn að sjá vilja og skilning íslenskra stjórnvalda til að viðurkenna þann rétt að íslenskir ríkisborgarar geti sameinast fjölskyldum sínum, jafnvel þótt um erlenda ríkisborgara sé að ræða.