Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 15:49:31 (7181)

2004-04-29 15:49:31# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara örfáir tilteknir aðilar voru kallaðir til þegar verið var að semja þetta umdeilda frv. Það voru þeir sem hv. þm. nefndi til sögunnar áðan, Útlendingastofnun, lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli og einhverjir fleiri. Það var ekki haft samráð við þá sem vinna með það fólk og hafa fengið það hlutverk að vinna að málefnum þessara hópa. Vissulega voru þeir kallaðir fyrir hv. allshn. sem og hinir aðilarnir sem voru kallaðir til í dómsmrn. til ráðslags við gerð frv. Hefði ekki verið betra að hafa meira samráð við þessa hópa líka og í kjölfarið að taka svolítið meira tillit til þeirra athugasemda þannig að hér tækist kannski að afgreiða frv. sem einhver örlítil sátt væri um?

Allt samfélagið logar út af þessum stóru umdeildu ákvæðum, virðulegi forseti, og hæstv. ríkisstjórn segir: Þetta er bara misskilningur. Það er endalaus misskilningur í gangi. Það gengur ekki, virðulegi forseti, að afgreiða svo alvarlegar athugasemdir og viðamiklar eins og fram hafa komið á þessar umdeildu greinar með því að hér sé um misskilning að ræða. Hæstv. ríkisstjórn verður að átta sig á því að stundum borgar sig að vinna heimavinnuna sína, hafa samráð og reyna að koma í veg fyrir að frv. séu ýmist misskilin eða mjög umdeild eins og það er reyndar hvort tveggja í þessu tilviki.