Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 15:51:07 (7182)

2004-04-29 15:51:07# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir heldur alltaf sömu ræðuna og klifar á því að ekkert (Gripið fram í: Ha?) annað sé í gangi í þjóðfélaginu en misskilningur. Einu tillögur hennar varðandi þau frv. sem hér eru til umræðu, ekki bara þetta heldur önnur, eru að þau verði dregin til baka og afgreiðslu þeirra frestað. Það er ekki bara bundið við þetta frv., heldur nánast öll þau frv. sem ríkisstjórnin leggur fram.

Ég verð að segja að ég tel að samráð varðandi samningu þessa frv. og meðferð þess hafi verið mjög eðlileg og lýðræðisleg. Allir þeir sem koma að málefnum þeirra hópa sem frv. varðar voru kallaðir fyrir nefndina, þeir fengu að reifa sín sjónarmið og koma þeim að og ég leyfi mér að endurtaka það ... (Gripið fram í: Þó það nú væri.) já, þó það nú væri. Ég leyfi mér að endurtaka að ég tel að þessi vinnubrögð séu eðlileg og lýðræðisleg og ítreka enn og aftur að verulegt tillit var tekið til þeirra athugasemda sem frá þessum hópum komu í því áliti sem liggur fyrir frá meiri hluta nefndarinnar.