Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 16:30:07 (7191)

2004-04-29 16:30:07# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Svo ég svari spurningu hv. þm. beint felst í fyrirvara mínum að ég get ekki stutt þetta tiltekna ákvæði í frv. En á heildina litið held ég að afstaða mín og hv. þm. til útlendinga sé nokkuð lík. Við deilum ýmsum sjónarmiðum varðandi útlendinga og hvernig eigi að taka á móti þeim. Mér finnst að við mættum gera meira af því að ræða annað en beinlínis verkefni Útlendingastofnunar í þinginu, ræða um annað en bara það sem varðar komu og brottför útlendinga og dvöl þeirra í landinu. Við hljótum að þurfa að ræða hvernig við ætlum að tryggja sem best aðlögun þeirra, hvernig við ætlum að veita börnum útlendinga sem mestan stuðning, ég tala nú ekki um þeirra sem koma frá öðrum löndum en EES-svæðinu og hafa átt erfitt uppdráttar í skóla og skila sér ekki einu sinni í framhaldsskóla. Það er svo ótal margt sem við getum rætt og gert betur á því sviði.