Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 16:38:45 (7197)

2004-04-29 16:38:45# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[16:38]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hafði orð á því að ég ætti jafnvel meira sameiginlegt með stjórnarandstöðunni. Mér finnst leiðinlegt að valda henni vonbrigðum og vísa í ágætar ræður bæði hv. þm. Bjarna Benediktssonar formanns allshn. og hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar sem útskýrðu m.a. þann misskilning sem ég hafði á orði að hefði orðið í samfélaginu um málið. Ég get tekið undir margt í ræðum þeirra. Ég verð að halda því fram í þessum stól að ég á meira sameiginlegt með viðhorfum þeirra, enda stend ég að áliti meiri hlutans með allt annað en þetta eina ákvæði.

Varðandi lögin frá 2002 sem hv. þm. hafði líka orð á og mér heyrðist hún segja að lögin hefðu valdið henni vonbrigðum af því að það væri ákveðin hugsanavilla í þeim. Það var sama upp á teningnum þegar við vorum að fjalla um það frv. Menn hengdu sig í ákveðið orðalag og fannst tónninn í lögunum ekki vinveittur. Ég held að fæstir útlendingar sem koma til Íslands lesi útlendingalögin. Ef mönnum finnst lögin ekki nógu vinsamleg eða lagatextinn geta þeir alveg forðast að mæta því viðhorfi, því þeir lesa ekki þessi lög. Það eru einstaka manneskjur sem sýsla með þessi lög.

Það sem skiptir máli er hvernig lögin eru framkvæmd. Og það sem skiptir líka máli er að lögin eru að hluta til framkvæmd á grundvelli reglugerðarinnar sem var ekki svo lítið gagnrýnd í sölum hins háa Alþingis. Sú reglugerð var unnin í samráði við útlendingasamfélagið á Íslandi. Framkvæmdin er því góð með einhverjum hnökrum er ég alveg viss um, sem er m.a. tilefni þess að frv. kemur fram og því ber að fagna því frv. er það sem útlendingarnir finna á eigin skinni.