Stríðsátökin í Írak

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 10:40:46 (7272)

2004-04-30 10:40:46# 130. lþ. 107.91 fundur 519#B stríðsátökin í Írak# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[10:40]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Þegar við tökum þetta mál fyrir í upphafi fundar liggur ljóst fyrir að hvorugur oddviti ríkisstjórnarinnar er staddur hér. Þrátt fyrir það veljum við að ræða þetta mál og senda þau skilaboð frá Alþingi að þessari stöðu verður ekki unað.

Við berum mikla ábyrgð á innrásinni í Írak. Aðild okkar olli miklu ósætti á Alþingi og með þjóðinni. Ég tek undir orð Ögmundar Jónassonar. Það á fyrst og fremst að biðja íslensku þjóðina afsökunar. Það á að biðja íslensku þjóðina afsökunar á því að okkur hafi verið blandað í þennan hörmulega hildarleik. Við berum ábyrgð á innrásinni með þeirri gjörð ríkisstjórnarinnar og við berum ábyrgð á eftirleiknum og eftirleikurinn hefur verið mjög alvarlegur. Ríkisstjórnin lætur sem ekkert sé. Þetta er ömurleg staða fyrir Ísland sem hingað til hefur verið þekkt á erlendum vettvangi sem land lýðræðis og land mannréttinda. Þessi ásýnd okkar hlýtur að breytast í kjölfar þess að Ísland tók þá afstöðu sem tekin var af ríkisstjórninni og við á Alþingi berum ábyrgð. Alþingi ber ábyrgð. Hvers vegna? Vegna þess að ríkisstjórnin nýtur stuðnings meiri hluta Alþingis í öllum gjörðum sínum og þar með þessum. Þess vegna er þetta mál Alþingis og þess vegna getum við rætt það á Alþingi þó enginn sitji á ráðherrabekkjunum frekar venju þegar ekki eru mál sem þeir hafa frumkvæði að.

Það hefur verið ömurlegt að verða vitni að því að ekkert af því sem var réttlæting fyrir innrásinni hefur staðist. Mannfall er orðið gífurlegt og borgarar hafa fallið og það er orðið vandamál fyrir fólk heima fyrir hvað mannfall er orðið mikið hjá innrásarliðinu. Og nú eru það pyntingar sem við berum líka ábyrgð á.