Stríðsátökin í Írak

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 10:51:37 (7277)

2004-04-30 10:51:37# 130. lþ. 107.91 fundur 519#B stríðsátökin í Írak# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[10:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að ekki er tími til þess hér í stuttri umræðu um störf þingsins að fara djúpt efnislega í þetta mál. En það er sjálfsagt mál að bæta úr því. Ég fer hér með formlega fram á það, herra forseti, að umræða verði utan dagskrár um þá stöðu sem nú er uppi í Írak og að til svara verði helst bæði utanrrh. og hæstv. forsrh. Það er best að bræðralagið haldi líka í því að þeir standi ábyrgir fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Það væri æskilegt, herra forseti, að semja um að menn hefðu þá rýmri ræðutíma þannig að hægt væri að fara rækilega yfir þetta mál. (Gripið fram í.) Þessir hlutir eru óuppgerðir hér (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) og það hefur margt til tíðinda borið í Írak, því miður, síðan 6. apríl sem ástæða er til að taka til umræðu á nýjan leik. Þessi mál eru óuppgerð hér. Ekki verður deilt um það að beri íslenskir ráðamenn, hæstv. ráðherrar Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, ekki lagalega og formlega persónulega ábyrgð á ákvörðunum sínum sem deila má um þá bera þeir a.m.k. pólitíska og siðferðilega ábyrgð og fyrir henni skulu þeir standa. Í Danmörku hefur þegar einn ráðherra sagt af sér vegna ábyrgðar danskra stjórnvalda á því sem fram fer í Írak. Hann valdi þann kost að taka á sig og axla vissa pólitíska ábyrgð á þeim hörmulegu mistökum dönsku ríkisstjórnarinnar að vera á lista hinna staðföstu þjóða og senda eitt gamalt herskip áleiðis til Persaflóans sem kannski er ekki komið þangað enn. Þátttaka Dana er því í sjálfu sér ekki mjög frábrugðin hinni íslensku að öðru leyti en þessu.

Það vantar að gera þessi mál hér upp. Auðvitað eiga hæstv. ráðherrar að biðja þjóðina afsökunar. Þetta var gert í trássi við hana. Ekki var löglega staðið að ákvarðanatökunni. Það er hægt þó seint sé formlega að afturkalla stuðninginn og það á auðvitað að gera. Ég endurtek, herra forseti, ósk mína um að hér fari fram umræða utan dagskrár um þessi mál.

(Forseti (BÁ): Forseti telur eðlilegt að ósk um slíka umræðu verði borin upp á fundi forseta með formönnum þingflokka.)