Útlendingar

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 12:34:39 (7291)

2004-04-30 12:34:39# 130. lþ. 107.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[12:34]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar aðeins til að staldra við það sem hv. þm. fjallaði um að í frv. fælist ógeðfelld afstaða gagnvart þeim sem ekki eru fæddir hér á landi. Í því sambandi fór hún sérstaklega yfir það að frv. mundi hafa gífurleg áhrif á líf fólks og nefndi til að mynda ömmur og afa sem vildu koma hingað til þess að sameinast fjölskyldu sinni.

Af því tilefni vildi ég spyrja hv. þm. hvort henni væri ljóst að hér á landi hafa gilt rúmar reglur fyrir þá aðstandendur sem hún tilgreindi sérstaklega. Af öllum Norðurlöndunum eru Íslendingar með rýmstu reglur hvað varðar umsóknir um dvalarleyfi og réttinn til að fá dvalarleyfi sem gilda á því svæði. Jafnvel eftir að frv. verður að lögum munu gilda rýmri reglur á Íslandi um rétt þessara aðila til að sækja um dvalarleyfi hér en gilda fyrir sömu aðila væru þeir að sækjast eftir dvalarleyfi í Danmörku þar sem enginn sjálfstæður réttur er lögfestur fyrir þá til að sameinast fjölskyldu sinni þar. Í Svíþjóð er enginn sjálfstæður réttur. Í Noregi getur einungis annað foreldra sameinast fjölskyldu sinni á grundvelli sameiningar fjölskyldu, þ.e. sótt um dvalarleyfi á forsendum aðstandanda.

Mig langar því að spyrja hv. þm.: Hefur hún gert sér grein fyrir að hér á landi gilda rýmri reglur um þetta efni en á öllum hinum Norðurlöndunum? Gerir hún sér líka grein fyrir að hér á landi munu áfram gilda rýmri reglur en alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum eftir að frv. verður að lögum?