Framkvæmd EES-samningsins

Föstudaginn 30. apríl 2004, kl. 15:18:42 (7325)

2004-04-30 15:18:42# 130. lþ. 107.2 fundur 551. mál: #A framkvæmd EES-samningsins# þál., HHj
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að þakka hv. flutningsmanni, Katrínu Júlíusdóttur, fyrir að taka þetta mál upp á vettvangi þingsins því það er sannarlega brýnt að það komi til skoðunar og varðar mikilsverð álitaefni í okkar alþjóðlega samstarfi og í því lagaumhverfi sem löggjafarþingið skapar.

Það er auðvitað hverjum manni ljóst sem hefur kynnt sér samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að þar er ekki á ferðinni heilsárshús. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er ekki framtíðaraðsetur fyrir heila þjóð. Ég hygg að frekar megi líkja þeim samningi við einhvers konar fortjald að þeim miklu byggingum sem Evrópusambandið er. Og þeir sem þurfa að liggja í fortjaldi mega búast við því hvenær sem er að ef hann blæs upp og gerir á norðanstorm þá fýkur tjaldið burt með litlum fyrirvara og menn liggja varnarlitlir eftir. Það getur sannarlega hent í því umhverfi sem við erum í í dag, samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þó að hitt sé líklegra að það gerist einfaldlega með árunum að þetta blessaða fortjald láti á sjá og smátt og smátt komi í ljós hver gallinn á fætur öðrum á þeim samningi, eins og hefur verið að gerast, og hann dragist aftur úr Evrópusamstarfinu almennt og verði okkur það fótakefli að okkur verði nauðugur einn kostur að ganga inn í hin stærri og betri húsakynnin. Það væri raunar óskandi að hér væru stjórnvöld sem hefðu metnað til þess að marka slíka stefnu sjálf og líta til framtíðar og hafa áhrif á það og taka þær ákvarðanir á meðan og þegar við erum í sterkri og góðri samningsstöðu fremur en að láta okkur fljóta sofandi að feigðarósi og neyðast í nauðung til þess að dragast inn í húsið þegar ekkert skjól er eftir lengur í fortjaldinu.

Ég vildi af þessu tilefni fá að vekja athygli þingheims á einu af þeim margvíslegu álitaefnum og göllum sem ég tel að séu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og mér hafa orðið ljós í vetur. Það var þegar ég flutti fyrirspurnir um tilskipanir sem vörðuðu mismunun fólks á vinnumarkaði vegna fötlunar, aldurs, trúarbragða, litarháttar o.s.frv., sem ekki höfðu verið teknar upp í íslenskan rétt og íslenska ríkið ákvað að túlka það sem svo að þær tilskipanir eða gerðir féllu ekki undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið því þær heyrðu undir þætti í Evrópusamstarfinu sem við værum ekki aðilar að og gætum þess vegna ekki fullgilt undir gerðinni. Þó höfum við alltaf leitast við að túlka það mjög vítt hvað falli undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, en þegar fatlaðir, aldraðir og aðrir slíkir hópar áttu í hlut reyndist ekki vera pólitískur vilji til að gera það, því miður. Og þannig er það auðvitað að við förum varhluta af ýmsum þáttum í Evrópusamstarfinu, mikilsverðum og góðum þáttum í því samstarfi.

En hitt vakti athygli mína þegar ég fór að kanna þetta að það virðist vera að ítrekað höfum við túlkað gerðir undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið í það minnsta, vil ég leyfa mér að segja, á næsta hæpnum forsendum eða a.m.k. með mjög ríkum vilja. Það má t.d. nefna gerð sem varðar vanefndir á samningum á markaði, gerð nr. 35 frá árinu 2000, sem hefur verið innleidd í Evrópuréttinn undir 95. gr. Evrópusamstarfsins sem heimilar í sjálfu sér innleiðingu á margvíslegum tilskipunum sem greiða fyrir skilvirkni á innri markaðnum og hefur kannski verið notuð sem nokkurs konar ruslakista til að koma inn alls kyns leiðréttingum. Þessi gerð er heimfærð þar undir vegna þess að ekki er hægt að heimfæra hana undir neina aðra grein. 95. gr. er ekki að finna í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og mönnum því væntanlega verið vandi á höndum að finna henni stað þar en þó komið henni að efnislega undir einum punkti í samningnum.

Slíkum vanda hafa Norðmenn oft staðið frammi fyrir. Þeir hafa hins vegar verið í miklu betri aðstöðu en við til að túlka mál með þessum hætti vítt, vegna þess að þegar um er að ræða álitaefni og vafamál í þessu þá er Norðmönnum mikið skjól í 93. gr. norsku stjórnarskrárinnar. Þegar slíkar gerðir eru annars vegar sem vefengja má að hægt sé að heimfæra undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið þá geta Norðmennirnir til þess að hafa lagalega fullvissu og eyða réttaróvissu, eftir að þeir hafa tekið gerðirnar upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með okkur, farið með þær heim í Stórþingið og leitað eftir því að fá þær afgreiddar með auknum meiri hluta og með vísun í 93. gr. Þannig geta Norðmenn eytt allri réttaróvissu um þær greinar sem túlka má kannski á tvo vegu hvort falli undir samninginn eða ekki, en það er vegna þess að þeir hafa heimildina í stjórnarskránni.

Við höfum enga slíka heimild og þess vegna er a.m.k. ástæða til að kanna það vel hvort við höfum verið að afgreiða ýmsar gerðir undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem hæpið sé að hafi þar nægilega stoð og að þess vegna og vegna skorts á slíkri heimild, sem hér hefur verið fjallað um, í íslensku stjórnarskránni höfum við skapað réttaróvissu á einhverjum sviðum.

Ég hef af því tilefni, virðulegur forseti, ákveðið að leggja fram fyrirspurn til hæstv. utanrrh., og vildi boða hana við þessa umræðu, um að hann geri þinginu grein fyrir því hvaða gerðir það eru sem hafa verið heimfærðar undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem Norðmenn hafa talið sig þurfa aukinn meiri hluta á norska Stórþinginu til að geta staðfest og eytt öllum vafa um, þannig að við sjáum hvaða gerðir það eru, hversu margar þær eru og sömuleiðis álit utanrrn. á því hvort um þessar gerðir og þau svið sem undir þær falla á Íslandi ríki einhver réttaróvissa. Ég held að mikilvægt sé að þeirri réttaróvissu sé eytt og ég held að það sé mikilvægt að allri óvissu um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sé eytt og fagna því framkominni þáltill. hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur.