Skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:02:43 (7328)

2004-05-03 15:02:43# 130. lþ. 108.91 fundur 524#B skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þann 29. janúar sl. lagði ég og fleiri þingmenn Samf. fram beiðni um skýrslu frá forsrh. um fjárframlög til stjórnmálastarfsemi og starfsumhverfi stjórnmálaflokka á Íslandi. Sá tími sem hæstv. ráðherra hefur til að svara þessari beiðni er löngu liðinn. Ráðherrann hefur 10 vikur til að svara henni en nú er komið á 14. viku frá því að ráðherra barst þessi beiðni.

Í beiðninni er ráðherrann m.a. beðinn um að svara því hvernig Ísland hefur undirgengist og framfylgt alþjóðlegum skuldbindingum um aðgerðir gegn pólitískri spillingu og hagsmunaárekstrum og með gagnsæi og eftirliti með fjármálum stjórnmálaflokkanna.

Herra forseti. Ítrekað hefur komið fram af hálfu stjórnarliða að það séu þjóðréttarlegar skuldbindingar samkvæmt tilmælum Evrópuráðsins að settar verði takmarkanir á eignarhald á fjölmiðlum. Þess vegna vekur það furðu að hæstv. forsrh. hafi ekki svarað þessari spurningu. Það brennur auðvitað á þinginu hvort ekki eigi að setja lög um starfsemi stjórnmálaflokkanna og þeir undirgangist þær alþjóðlegu skuldbindingar eins og stjórnarliðar kalla nú eftir gagnvart fjölmiðlum. Ég beini því til hæstv. forsrh. hvort ekki standi til að skila þessari skýrslu áður en þingi lýkur vegna þess að það er nauðsynlegt að ræða hana.

Það vakti vissulega furðu mína að rétt áður en fundur var settur í dag barst mér bréf í hendurnar frá ráðuneytinu um að beðið væri um frest til að svara þessari skýrslubeiðni eftir að ég hafði um hádegisbilið óskað eftir því við ráðuneytið að forsrh. svaraði þessu og óskaði eftir því við hæstv. ráðherrann líka í hádeginu að hann svaraði þessu. Það á að fresta skilum skýrslunnar fram á næsta þing stendur í bréfinu, herra forseti. Þetta eru ótæk vinnubrögð, og ótækt með öllu að þetta skuli vera viðbrögðin þegar búið er að biðja um þessa umræðu um störf þingsins.

Ef þingið hefur þurft að ráða starfsmann til að svara þessu eins og kemur fram í bréfinu, af hverju var það ekki gert strax í janúar þegar beðið var um að þessi skýrsla yrði unnin? Þetta eru ólíðandi vinnubrögð.