Skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:18:31 (7337)

2004-05-03 15:18:31# 130. lþ. 108.91 fundur 524#B skýrsla um fjárframlög til stjórnmálaflokka# (aths. um störf þingsins), HHj
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Það er ekki laust við að sú spurning sem ég setti fram við upphaf umræðnanna hafi heldur ágerst eftir því sem leið á síðari ræðu hæstv. forsrh., um hvað Sjálfstfl. hafi að fela í þessu efni. Hæstv. forsrh. vildi augljóslega tala um allt annað og alla aðra en sig og Sjálfstfl. í þessu efni.

Það liggur fyrir að Samf. hefur markað stefnu um að við upplýsum um það ef fyrirtæki veita okkur meira en 500 þús. kr. árlega. Það veit hæstv. forsrh. mætavel. Þær upplýsingar hafa verið lagðar fyrir. Að vísu hefur enginn svo stór styrktaraðili verið í síðustu kosningabaráttu. Það er ekki flóknara mál en það.

En hvers vegna í ósköpunum er hæstv. forsrh. svo hræddur við að létta leyndinni af fjármálum stjórnmálaflokkanna? Hvað er þar að fela? Hvers vegna má ekki setja um það lög og reglur? Gildir ekki hið sama um stjórnmálaflokkana og fjölmiðlana í huga forsrh.?