Afgreiðsla mála úr nefndum

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 15:29:02 (7342)

2004-05-03 15:29:02# 130. lþ. 108.94 fundur 527#B afgreiðsla mála úr nefndum# (um fundarstjórn), Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[15:29]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil að þessu gefna tilefni taka skýrt fram að það eru mörg fordæmi fyrir því að stjórnarmeirihluti hafi haft minni hluta í einstökum nefndum þingsins. Svo var t.d. á árunum frá 1980--1983 og minnist ég þess ekki eitt einasta skipti að stjórnarandstaðan á þeim tíma hafi gert tilraun til að standa gegn því að meiri hluti þingsins næðist fram eða að umræður af þessu tagi ættu sér stað, að minni hluti þingsins héldi því fram að ef hann hefði, af tilviljun, meiri hluta í einhverri þingnefnd gæti hann stöðvað þingmál. Það er auðvitað ekki svo.

Það er auðvitað svo að þingmenn í nefndum geta gefið út nefndarálit hvenær sem þeim sýnist en komi í ljós að meiri hluti nefndar ætli að standa gegn vilja þingsins með því að reyna að koma í veg fyrir að mál sé afgreitt frá nefnd þá kemur til forseta Alþingis að meta stöðuna og skera úr ágreiningi um það hverju sinni. Slíkir úrskurðir eru auðvitað gefnir eftir efni máls eins og okkur er kunnugt. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmenn hafi kynnt sér þingsöguna í þessu efni áður en þeir tóku til máls og átti sig á því, án þess að ég þurfi að hafa um það fleiri orð, um hvað ég er að tala.