Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 17:56:18 (7403)

2004-05-03 17:56:18# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, DrH
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[17:56]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu frumvarp sem byggist á viðamikilli og góðri skýrslu um eignarhald á fjölmiðlum sem hér var rædd í síðustu viku og fékk mjög ítarlega umræðu. Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að íslenskur fjölmiðlamarkaður hafi ýmis þau einkenni samþjöppunar sem talin eru óheppileg út frá þeim alþjóðlegu viðmiðunum um fjölbreytni í fjölmiðlun sem byggt er á í skýrslunni og telur nefndin æskilegt að brugðist verði við þessu ástandi með lagasetningu.

Af mannréttindasáttmála Evrópu, eins og hann hefur verið túlkaður af Mannréttindadómstól Evrópu, leiðir að tryggja ber fjölbreytni í fjölmiðlun. Á þeim grundvelli hefur ráðherraráð Evrópuráðsins samþykkt tilmæli um að leita leiða til að ná því markmiði. Á okkur hvílir því sú þjóðréttarskylda að leita leiða til að tryggja þá fjölbreytni.

Markmið frumvarpsins er að tryggja frelsi og fjölbreytni í framboði og að margbreytileg sjónarmið fái að koma fram. Eitt helsta hlutverk fjölmiðla er að vera vettvangur lýðræðislegra skoðanaskipta því að þau eru ein meginstoð opins samfélags og lýðræðislegrar stjórnskipunar. Á fjölmiðlamarkaði þarf að ríkja fjölbreytni til að almenningur fái upplýsingar úr ólíkum áttum. Það er varhugavert að of fáir aðilar verði ráðandi um þátt fjölmiðla í skoðanamyndun samfélagsins.

Herra forseti. Frumvarpið beinist ekki gegn neinum tilteknum fyrirtækjum. Með því á að setja almennar reglur. Vegna mikilvægis fjölmiðla fyrir almenning er eðlilegt að setja sérlög um starfsemi þeirra rétt eins og sérlög eru t.d. sett um starfsemi fjármálafyrirtækja. Í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við eru í gildi ýmis lög sem setja fjölmiðlum og eigendum þeirra margvíslegar skorður. Það virðist sem svo að lagasetning hafi gjarnan komið til vegna þess að sérstakar aðstæður hafi myndast á fjölmiðlamarkaðnum sem löggjafinn hefur talið að ekki samræmdust þeim kröfum sem gerðar eru til þarfa lýðræðisins. Þess vegna eru reglurnar margbreytilegar eftir löndum.

Í Bandaríkjunum er t.d. óheimilt að eiga bæði ljósvaka- og prentmiðla á sama markaðssvæði. Í Evrópu eru margháttaðar reglur um starfsemi fjölmiðla og í Noregi er um þessar mundir verið að undirbúa lagasetningu sem takamarkar möguleika eins fyrirtækis til að verða ráðandi í fleiri en einum geira fjölmiðlunar.

Herra forseti. Meginhugsunin í frumvarpinu er sú að markaðsráðandi fyrirtæki eigi ekki hlut í ljósvakamiðlum, að ekki verði sameiginlegt eignarhald á prentmiðlum og ljósvakamiðlum og að tryggt verði að eignarhald verði dreift. Til þess að þessi markmið gangi fram verða lögin að taka til þess ástands sem nú er á markaðnum. Lög um fjölmiðla erlendis markast greinilega af því að löggjafinn hefur brugðist við einhverjum ákveðnum vandamálum sem hafa komið upp á fjölmiðlamarkaði.

Sá vandi sem við er að etja á Íslandi er að sökum smæðar hagkerfisins gerist það oftar en annars staðar að fyrirtæki komast í markaðsráðandi stöðu. Oft er það blátt áfram vegna þess að til þess að geta boðið vöru og þjónustu á hagstæðu verði fyrir neytendur verða fyrirtækin að ná ákveðinni lágmarksstærð og þegar þeirri stærð er náð kann fyrirtækið að vera komið í markaðsráðandi stöðu. Ríkisvaldið hefur ekki viljað beita sömu hörku gegn fyrirtækjum í þessari stöðu og gert er víðast hvar erlendis. Nauðsynlegt er að taka tillit til smæðar íslenska markaðarins. En á móti kemur að gera verður þá kröfu að fjölmiðlar sinni sérstaklega vel þeirri skyldu sinni að gefa óbjagaða mynd af þessum fyrirtækjum og að þau sinni neytendavernd vel og dyggilega, t.d. með verðkönnunum og öðru því sem veitir markaðsráðandi fyrirtækjum aðhald.

[18:00]

Herra forseti. Það þarf líka að hafa í huga að fjölmiðlanefndin lýsti þeirri skoðun sinni að ekki væri hægt að búa við núverandi ástand. Til lítils væri að setja lög sem hefðu engin áhrif og mundu einungis festa í sessi til margra ára stöðu þeirra fyrirtækja sem nú þegar hafa komið sér fyrir á fjölmiðlamarkaðnum. Fyrirtækjum er hins vegar tryggður rúmur tími til að laga sig að þeim breytingum sem frv. felur í sér, eða tvö ár. Markaðsráðandi fyrirtæki þurfa strangt aðhald fjölmiðla. Slíkt aðhald verður ekki trúverðugt ef meiri hluti fjölmiðla er t.d. að stærstum hluta í eigu markaðsráðandi fyrirtækis. Vandinn er einnig sá að eignarhaldið veldur sjálfkrafa vafa um sannleiksgildi frétta. Fréttamenn ættu ekki að þurfa að vera í þeirri stöðu og það á ekki að koma þeim í þá stöðu að þurfa að fjalla um eigendur sína.

Markaðsráðandi fyrirtæki eru því óæskilegir eigendur fjölmiðlafyrirtækja þar sem viðskiptahagsmunir þeirra geta haft mikil áhrif, bein og óbein, á fréttaflutning málgagna þeirra. Hlutverk fjölmiðla er öðrum þræði það að fjalla um viðskiptalífið, veita því aðhald og styðja við neytendavernd. Það hlutverk fjölmiðla er sérstaklega mikilvægt á Íslandi þar sem smæð markaðarins er slík að markaðsráðandi fyrirtæki eru algengari en víðast annars staðar.

Herra forseti. Það er afar varhugavert að fáir aðilar verði ráðandi um þátt fjölmiðla í skoðanamyndun í samfélaginu. Fjölmiðlar verða að njóta frelsis og sjálfstæðis, vera fjölbreyttir að gerð og eiginleikum og óháðir hver öðrum til að þeir geti speglað ólík sjónarmið og þeim sé ekki gert mishátt undir höfði. Erlendis eru margs konar reglur sem stjórnvöld setja um fjölmiðlamarkaðinn. Þeim er ætlað að tryggja lýðræðislega umræðu og að fjölmiðlar sinni hlutverki sínu. Alls staðar meðal siðaðra lýðræðisríkja eru reglur sem setja skorður við því að stór og voldug fyrirtæki geti sölsað undir sig fjölmiðla. Þar eru settar reglur um eignarhald til að tryggja fjölbreytta fjölmiðlun og lýðræðislega stjórnarhætti.

Herra forseti. Umræða um fjölmiðlamarkaðinn hefur staðið um langt skeið. Með því að frv. hefur verið lagt fram hefur sú umræða náð nokkru hámarki. Það er því rangt að halda því fram að málið hafi ekki verið rætt í þjóðfélaginu áður en frv. leit dagsins ljós. Ekki þarf að líta langt aftur, þetta er eina málið sem er í fjölmiðlum dag eftir dag frá því að skýrslan kom fram. Það er því rangt að halda því fram að umræðan hafi ekki farið fram.

Hvað þingið varðar er allur málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar með eðlilegum hætti og sökum mikilvægis málsins hefur verið ákveðið að þinglokum verði frestað og þingið hefur því allan þann tíma sem það sjálft telur nauðsynlegt til að tryggja vandaða umfjöllun áður en til afgreiðslu kemur.