Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 20:41:37 (7432)

2004-05-03 20:41:37# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[20:41]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. ,,Á sjónarmiðum Evrópuráðsins``, sagði hv. þm. Þá ætla ég að biðja hann að skýra fyrir mér hverjir af þessum þáttum eru tryggðir í frv. hæstv. forsrh. og ríkisstjórnarinnar.

Það er talað um fjölbreytni í skýrslunni á síðu 69 í frumvarpslíkinu. Þar er þetta sagt um fjölmiðlafjölbreytni, með leyfi forseta:

,,Segir að átt sé við fjölbreytni í framboði fjölmiðla, sem fram komi m.a. í mörgum og ólíkum sjálfstæðum fjölmiðlum og fjölbreytni í tegundum fjölmiðla og innihaldi fjölmiðlaefnis, að því er varðar sjónarmið og skoðanir, sem aðgengileg séu almenningi. Í tilmælunum er leitast við að tryggja þessi markmið, þ.e. fjölbreytni í uppbyggingu fjölmiðlamarkaðarins og því efni sem þeir miðla til almennings. Þá er áréttað að mikilvægustu efnisþættir hugtaksins séu annars vegar pólitísk fjölbreytni og hins vegar menningarleg.``

En í frv. er aðeins á ákaflega kauðalegan, þunglamalegan og kjánalegan hátt sem á eftir að fara illa með fjölmiðlana hér á landi minnst á eignarhaldið. Hvar er virðingin fyrir tilmælum Evrópuráðsins? Þetta er 1999 sem ég er að tala um.