Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 20:45:10 (7435)

2004-05-03 20:45:10# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[20:45]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Hér kom djúpur sálgreinir og fór yfir stöðu mála á ríkisstjórnarheimilinu eins og hann hefði verið fluga á vegg inni á ríkisstjórnarfundum. En ég hygg að þó að máttur hv. þm. Marðar Árnasonar sé mikill þá viti hann lítt um hvað gerist þegar okkar ágætu ráðherrar ræða saman.

Ég endurtek það, ef hv. þm. hefur ekki náð því áðan, að hér var birt fjölmiðlaskýrsla, afskaplega vönduð skýrsla og málefnaleg. (MÁ: Hefurðu lesið hana?) Ef hv. þm. reynir einu sinni að hlusta þá get ég sagt honum að á grundvelli þessarar skýrslu var samið frumvarp. Ríkisstjórnarflokkarnir standa heils hugar að þessu frv. og eru sammála því meginprinsippi sem þar ríkir.

Hins vegar gildir annað um hv. þm. Hann er í því liði sem hefur fallið frá því að hafa áhyggjur af fákeppni á fjölmiðlamarkaði. Það er umhugsunarefni.