Útvarpslög og samkeppnislög

Mánudaginn 03. maí 2004, kl. 21:24:31 (7451)

2004-05-03 21:24:31# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HBl
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[21:24]

Halldór Blöndal:

Hæstv. forseti. Ég er mjög ánægður með að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson skuli í sátt gefa þá yfirlýsingu að hann sé þeirrar skoðunar að það sé óæskileg samþjöppun í eignarhaldi á fjölmiðlum. Það skýrir þá skoðun hans að við höfum verk að vinna til að draga úr hinni óheppilegu samþjöppun í eignarhaldi á fjölmiðlum. Það skýrir það enn fremur, þegar hann talar um að ná lendingu í þessu máli, að hann á við að ríkið þurfi að grípa inn í til að draga úr þeim óæskilegu áhrifum sem slík óæskileg samþjöppun í eignarhaldi á fjölmiðlum hefur.

Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. tali, eins og hann gerir oft öðrum þræði, sem gamall verkalýðssinni og hugsi auðvitað um það með hvaða hætti hann geti komið launþegum og almenningi til góða. Við skulum jafnframt hafa í huga þá miklu sérþekkingu sem hv. þm. hefur á kjörum fólks úti á landi sem líka skýrir að hann skuli með þessum orðum sínum leggja áherslu á að hér sé óheppileg samþjöppun í fjölmiðlun. Þetta er einmitt atriði sem við þurfum að glöggva okkur á og skýrir um leið, svo ég bæti inn í, það sem fram kom í ræðu hv. 9. þm. Reykv. s., Ögmundar Jónassonar, í dag. Hann hefur líka áhyggjur af þeirri óæskilegu samþjöppun sem verið hefur í fjölmiðlun hér á landi. Hann lagði að sínu leyti mjög ríka áherslu á að ef til vill mundi nægja eða að a.m.k. væri fyrsta skrefið til að mæta henni að styrkja Ríkisútvarpið meira en gert hefur verið. Ég er að vísu ósammála honum um að það sé nægjanlegt en hann leggur áherslu á þennan þátt málsins. En þar með liggur það fyrir að fjórir stjórnmálaflokkar af fimm eru sammála um að óæskileg samþjöppun sé á fjölmiðlamarkaði.

Á hinn bóginn liggur líka fyrir að fimmti stjórnmálaflokkurinn, Samf., er því fullkomlega andvígur og telur að ekki sé ástæða til að hrugga neitt við þeirri samþjöppun sem þar hefur orðið. Ég vil líka sérstaklega minna á að þetta þarf ekki að koma svo mjög á óvart ef við höfum í huga hverjir hafa eignarhald á þessum fjölmiðlum. Það eru einmitt þeir sömu aðilar og varað var svo sterklega við, í Borgarnesræðunum báðum, að við mætti hrugga.

Það er auðvitað ánægjulegt að hér skuli kominn inn á Alþingi sá stjórnmálaleiðtogi sem sérstaklega hefur borið fyrir brjósti hagsmuni þessarar fyrirtækjasamsteypu Baugs og Jóns Ólafssonar. Hún getur þá með öðru skýrt hugmyndir sínar um æskilega þróun á smásölumarkaði og æskilega þróun á fjölmiðlamarkaði hin síðustu missirin. Mér finnst mjög þarft að fá þau sjónarmið skýrt fram. Auðvitað gerum við, sem um þetta ræðum og berjumst fyrir því að hér verði settar nokkrar hömlur á slíka samþjöppun valds, okkur grein fyrir því að þeir sem mest eiga þar í húfi berjast sterklega gegn því sem við erum að gera. Í því sambandi er líka eftirtektarvert að sjá og heyra þegar þingmenn Samf. tala um það hér að þeir óttist mjög að engir verði til þess að reka Stöð 2 ef Baugur hættir því.

Nú skulum við líta á hvaða augum Jón Ásgeir Jóhannesson lítur á Stöð 2 að þessu leyti. Í viðtali við Jón Ásgeir í Viðskiptablaðinu var hann spurður: Skiluðu innlendar fjárfestingar Baugs hagnaði á síðasta ári? Þá svaraði hann, með leyfi hæstv. forseta:

,,Já. Fyrirtækið skilaði um 9 milljörðum í hagnað og 2--3% af því kemur úr innlendri starfsemi,`` segir hann. 2--3% af 9 milljörðum eru um 180--270 millj. kr. Ef við á hinn bóginn horfum til þess hvaða hagnað þessi reyndi viðskiptajöfur telur hægt að hafa af Stöð 2 þá svarar hann, með leyfi forseta:

,,Þegar spurt er hvar er hægt að spara í í Norðurljósum er svarið alltaf fréttastofan. Þar eru um 200 millj. Möguleikarnir sem við sáum í þessu voru að byggja upp fyrirtæki sem hefði 1.000--1.200 millj. rekstrarhagnað fyrir afskriftir og fjármagnskostnað og ætti von á sparnaði upp á 300--400 millj. á næstu 2--3 árum. Þannig var hægt að búa til ágætt félag.``

[21:30]

Þetta er mat Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á því hvaða arðsemi hægt er að ná út úr Stöð 2. Þegar við horfum á þessar niðurstöður, þegar við gerum okkur grein fyrir því að hann telur að hann geti haft meiri sparnað, meiri nettóhagnað af Stöð 2 einni en af allri innlendri starfsemi Baugs, þá skiljum við um leið að það eru staðlausir stafir, í þessu ljósi, að það sé vafi á því að einhverjir aðrir muni hafa áhuga á rekstri Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Hér er beinlínis sagt að þessi fyrirtæki séu mjög arðvænleg ef rétt er að rekstri þeirra staðið.

Á hinn bóginn vekur það líka athygli sem þessi ágæti viðskiptajöfur segir þegar hann hótar með hinu orðinu, með því að segjast sjá fram á að ef frv. af þessu tagi verði að lögum muni einungis rekin ein fréttastofa í sjónvarpi, ríkisfréttastofa, einungis þessi eina fréttastofa. Þetta fellur ekki saman við það sem hann segir á öðrum stað. Hann segist geta haft 300--400 millj. kr. nettó upp úr krafsinu en einungis kosti 200 millj. kr., segir hann, að reka fréttastofuna, þ.e. sá sparnaður mundi hljótast af því að leggja hana niður.

En það er annað hjá þessum ágæta viðskiptajöfri sem við skulum hyggja að í þessu samhengi. Það er að í raun og veru er hann að gefa í skyn að fréttastofa Stöðvar 2 sé rekin með samlegðaráhrifum við fréttastofu Fréttablaðsins og fréttastofu DV. Þá erum við einmitt komin að þeim kjarna málsins sem fram kemur hjá Evrópuráðinu og hjá þeim mönnum sem vilja hugsa frjálst og óháð, sem hugsa um að í gegnum fjölmiðlana sé hægt að fá túlkun og frásögn af því sem er að gerast á hlutlægan hátt, þ.e. að fréttastofa á hverjum fjölmiðli sé sjálfstæð og öðrum óháð. Á þetta hefur verið lögð svo mikil áhersla í Ríkisútvarpinu, og af stjórnmálamönnum fram til þessa, að mér er ekki kunnugt um að einum einasta stjórnmálamanni hafi dottið í hug að bæta rekstur Ríkisútvarpsins með því að reka saman fréttastofu sjónvarps og útvarps. Hér sjáum við eins og þetta er túlkað hér, nema þarna sé eitthvað sem maður sér ekki við fyrsta lestur af því að maður er ekki viðskiptajöfur, gefið í skyn að þetta eigi allt að reka saman.

Ef maður reynir að lesa blöðin og hlusta á Stöð 2, á hvernig fréttir eru túlkaðar þegar mikið liggur við þar sem hagsmunir Baugs eru, þá vitum við að blærinn er sá sami og myndbirtingin í þessum þremur fjölmiðlum svipuð. Með þessu er ég ekki að segja að ég sé á móti því að Fréttablaðinu eða DV sé beitt af mikilli óskammfeilni. Ég hef langa reynslu í blaðamennsku og geri mér grein fyrir því að smátt og smátt glöggva lesendur sig á því ef einhver fjölmiðill kemur fram æ ofan í æ með sömu messugjörðina og reynir að stinga ofan í hlustarkokið á fólki einhverju sem hlustarkokið vill ekki kyngja. Ég óttast því ekki svo mjög að þessir tveir fjölmiðlar, DV og Fréttablaðið, muni þegar til lengdar lætur verða svo skoðanamyndandi að úrslitum ráði. En ég vek athygli á að mér vitrari menn, eins og í Evrópuráðinu og á ýmsum öðrum stöðum, leggja upp úr því að frjáls fréttaflutningur sé grundvallaratriðið í almennum mannréttindum lýðfrjálsra þjóða. Þeir ætlast til þess að lýðfrjálsar þjóðir tryggi það, m.a. með því að setja reglur um eignarhald fjölmiðla. Þetta liggur fyrir. Þegar hv. þingmenn Samf. koma og reyna að lesa upp úr skýrslu nefndarinnar aðrar staðreyndir en ég hef sagt frá þá er með því verið að drepa málinu á dreif. Það er kjarni málsins. Þá er verið að drepa málinu á dreif.

Nú skulum við athuga einn hlut. Nú geta menn auðvitað sagt, sem trúa og treysta Samkeppnisstofnun: Já, við skulum bara láta Samkeppnisstofnun um þetta. Hún sér um það. En það er hvergi gert vegna þess að samkeppnislögin eru fyrst og fremst viðskiptalegs eðlis. Þau geta aldrei tekið á hlutum eins og frjálsum fréttaflutningi, huglægum hlutum eins og frelsi og öðru slíku. Það er af þeim sökum sem hvarvetna er sagt að það verði að setja frekari tryggingu þegar fjölmiðlar eiga í hlut. Þetta vitum við öll sem hér erum inni. Við vitum öll að við viljum ekki of sterkan einhliða áróður.

Hver hefðu svörin orðið ef við hefðum spurt þingið fyrir tíu árum, fyrir átta árum, fyrir fjórum árum: Er einhver þingmaður hér inni sem mundi hika við að rétta upp hönd með því að sá smásöluaðili sem er með 30--50% af allri smásölu í landinu og kannski með 30--50% af öllum auglýsingunum í sínum höndum, hafi ofurvald í eign sinni á meiri hluta fjölmiðlanna? Hefði Kvennalistinn fagnað því sérstaklega að láta einhverja karla hafa þetta allt í sínum vösum? (ISG: Þeir eru það.) Var það stefna Kvennalistans á sínum tíma? Það var ekki stefna Kvennalistans. Ég skal ekki fara út í það hvernig þær konur sem ég tek mest mark á hafa gert grein fyrir því að þær hugsjónir og sá flokkur og sá kvennalisti var eyðilagður.

Horfum til þeirra manna sem hafa verið að predika sósíalisma og annað í þá áttina og þá getum við spurt: Hvernig stendur á því að þeir leggja sérstakt kapp á það að gerast talsmenn þess að tveir eða þrír einstaklingar eigi, ofan á það að bera ægishjálm yfir alla aðra í smásölunni, líka að ráða meiri hluta á fjölmiðlamarkaði? Hvernig hafa menn geð í sér til að halda slíku fram? Hvernig hafa menn það?

Svo tala menn um það hér að tryggja eigi ritstjórum og blaðamönnum frelsi gagnvart eigendunum með einhverri löggjöf. (Gripið fram í.) Menn segja þetta með englasvip og blá augu. Mér dettur stundum í hug að þeir hafi æft sig heima áður en þeir komu upp í pontuna, horft á sig í spegli og sagt: Við skulum setja lög um að eigendur allra fjölmiðlanna skipti sér ekki af því hvað blaðamennirnir skrifa.

Það er hálfbroslegur pistill sem hér er verið að flytja.

Tökum annað dæmi. Ég man ekki betur en að hver á fætur öðrum úr gamla Alþýðuflokknum --- sumir tóku meira að segja stökk yfir í nýjan flokk áður en þeir komust í Samf. --- hafi haldið því fram að það skipti höfuðmáli og öllu máli að hér skuli vera samkeppnislög. Við skulum passa upp á samkeppnina, hafa þeir sagt. Förum fjögur ár aftur í tímann, halda menn að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefði flett upp í einkamálgagni lyfsala til að fá þaðan fréttir um það hvort lyfjaverð væri hæfilegt í landinu? Dettur einhverjum hv. þm. í hug að sami hv. þm., Jóhanna Sigurðardóttir, hefði flett upp í ársskýrslu kjötsala hafi hún velt fyrir sér kjötverðinu? Ætli það sé ekki best að eftirlitið sé í höndum þeirra sem eiga að fylgjast með? Ætli við vitum það ekki öll að við tökum ekki mark á Fréttablaðinu, DV eða Stöð 2 þegar þessir fréttamiðlar, eins og þeir eru skrifaðir, eru að tala um það hvort samkeppni sé rétt og sönn á smásölumarkaði? Ég held að hver einasti þingmaður, jafnvel líka þeir sem hefðu trúað á blað lyfsala, séu sammála mér um að frjáls fjölmiðlun sé forsendan fyrir því að fólk geti treyst útvarpi og því sem í blöðum stendur. Hér er ekki stigið lengra en svo að það á að takmarka eignarhald á sjónvarpi vegna þess að ljósvakafjölmiðlarnir eru áhrifamestu fjölmiðlarnir og það er þess vegna sem við þurfum að taka á þeim fyrst, og vonandi er það nóg.

Í þessum umræðum öllum er eitt sem mér hefur þótt mjög leiðinlegt og satt að segja óhuggulegt. Það var ekki fyrr byrjað að ráðast á Ríkisútvarpið fyrir óheiðarleika í Bónus-fjölmiðlunum en sá sami tónn bergmálaði hér í þingsölum frá þingmönnum Samf., ekki væri hægt að treysta Ríkisútvarpinu og sjónvarpinu. Þar væru þættir og þar væru menn sem væru hallir undir ríkisstjórnina. Hið sama heyrðist frá Frjálsl.

Nú vitum við auðvitað að menn geta haft deildar meiningar um heiðarleika þeirra manna sem vinna í Ríkisútvarpinu. Er samt ekki lágmarkskrafa að biðja hv. þm. sem eru að verja Baugsveldið um að hlífa þeim og sýna þeim nokkra kurteisi? Ekki hafa þeir neitt til saka unnið.

Að síðustu vil ég aðeins minna á að Þorbjörn Broddason segir í viðtali við Fréttablaðið, með leyfi forseta: ,,Hann telur hins vegar eðlilegt að gjalda varhuga við sterkri stöðu Baugs, bæði á matvöru- og fjölmiðlamarkaði, en hugsanlega ætti að beita öðrum úrræðum ef vilji sé til þess að draga úr þeim.`` Nú getur enginn maður borið þessum manni það á brýn að hann sé einhver sérstakur vinur okkar sjálfstæðismanna, eins og hann hefur talað. Hér segir hann þó beint og afdráttarlaust að við skulum gjalda varhuga við því að sami aðilinn skuli hafa svo sterka stöðu á matvörumarkaði og fjölmiðlamarkaði og staðfestir með því þann ótta og þann kvíða sem við höfum borið í brjósti. Það er ekki hægt að koma hér upp og tala eins og ekkert af þessu sé fyrir hendi sem ég hef verið að lýsa. Við vitum að þessi ógnvænlega samþjöppun á sér stað og það er skylda Alþingis gagnvart því fólki sem hér býr og gagnvart frjálsri hugsun að bregðast við og það munum við gera nú á þessu vori.