Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 14:41:59 (7579)

2004-05-04 14:41:59# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[14:41]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð nánast hrærður þegar hv. þm. kemur og eys þessu lofi á hv. þingmenn Samfylkingarinnar í samgöngunefnd. Auðvitað verð ég að trúa henni fyrir því að ég deili þessari reynslu með henni. Það er mín reynsla að þeir vinni ákaflega vel eins og reyndar flestir þingmenn jafnan.

Ég tók það ákaflega skýrt fram í ræðu minni núna og ekki síst í ræðu minni við 2. umr. að ég er ekki að deila á nefndina. Ég veit að hún hefur farið vel yfir þetta, enda spurði ég hv. þm. Guðmund Hallvarðsson við 2. umr. út í ákveðin atriði sem skýrðu málið svolítið fyrir mér. Það er alveg ljóst að nefndin hafði skoðað þetta eins og kostur var miðað við þann tímaramma sem er á þessu. Það liggur fyrir að við verðum að samþykkja þetta vegna þess að ef við gerum það ekki þá einfaldlega getum við misst af viðskiptum við Bandaríkin. Þess vegna er þetta algjörlega nauðsynlegt.

Það sem ég var hins vegar að deila á var útfærslan af hálfu hæstv. samgönguráðherra sem ber málið með þessum hætti inn í þingið. Ekki er hægt að ætlast til þess að þingið gjörbylti tæknilegri útfærslu eins og þeirri sem kemur til í frumvarpinu sem við erum hér að ræða. Ég deili hins vegar á hæstv. samgönguráðherra fyrir að gera þetta svona flókið og sömuleiðis fyrir að leggja til öll þessi gjöld. Sú vá sem við erum hér sameiginlega að bregðast við er nefnilega ekki eins og hverjar aðrar hremmingar. Þetta er nokkuð sem við sem þjóð þurfum að sæta vegna þess að ytri skilyrði breytast. Þá segi ég: Við eigum að velta því fyrir okkur hvort ekki sé hægt að bregðast við kostnaðinum með öðrum hætti. Þeir sem eiga fyrst og fremst að gera það eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins vegna þess að þeir hafa sagt að hægt sé að spara mikið í rekstri ríkisins með tilteknum aðgerðum. Þá væri væntanlega hægt að nota það svigrúm sem þar skapast til þess að mæta þessum sex gjöldum sem hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir virðist beinlínis vera stolt af að styðja.