Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 15:01:02 (7590)

2004-05-04 15:01:02# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, Frsm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Það er margt athyglisvert sem fram hefur komið í umræðunni um það frv. til laga sem liggur fyrir 3. umr., um siglingavernd, en ég vil byrja á því að fylgja úr hlaði brtt. við frv. til laga um siglingavernd frá eftirtöldum hv. nefndarmönnum:

Guðmundi Hallvarðssyni, Arnbjörgu Sveinsdóttur, Guðjóni Hjörleifssyni, Guðjóni A. Kristjánssyni, Jóhanni Ársælssyni, Birki J. Jónssyni, Ástu R. Jóhannesdóttur og Einari Má Sigurðarsyni.

(Gripið fram í: Ekki Össuri?) Hann er ekki í nefndinni, hv. þm.

Herra forseti. Í tilefni af frammíkallinu væri ef til vill rétt ef þingsköp leyfðu að hægt væri að leita afbrigða í þingsalnum að fá það í gegn að hv. formaður Samf., Össur Skarphéðinsson, fengi að sitja í nefndinni sem áheyrnarfulltrúi.

Við leggjum til eftirfarandi breytingu:

1. Við 3. gr.

a. Í stað orðanna ,,alþjóðasamþykktar um siglingavernd`` í 2. tölul. komi: siglingaverndar.

b. Í stað orðsins ,,skips`` 8. tölul. komi: skipa.

2. Við 8. gr. 1. mgr. orðist svo:

Siglingastofnun Íslands setur reglur um fyrirkomulag öryggisleitar hafnaryfirvalda á starfsfólki og farþegum skemmtiferðaskipa og í farangri þeirra og á áhöfnum og öðrum þeim sem vegna starfs síns þurfa að fara inn á hafnaraðstöðu eða um borð í skip sem falla undir lög þessi.

Allir nefndarmenn að undanskildum Kristni H. Gunnarssyni, sem var fjarstaddur, skrifa undir brtt. svo og nál. samgn.

Vegna orða hv. formanns Samf., Össurar Skarphéðinssonar, sé ég mig tilneyddan til að fara aðeins yfir athugasemdir við lagafrumvarpið, einkum þær sem beinast að því hvers vegna lögin voru sett. Með leyfi forseta vitna ég til þeirra enn á ný:

,,Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu í samvinnu við stýrihóp sem samgönguráðherra setti á fót í maí 2003 til að vinna að innleiðingu siglingaverndar hér á landi. Í hópnum áttu sæti fulltrúar frá Siglingastofnun Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, ríkislögreglustjóra, tollstjóra, Hafnasambandi sveitarfélaga, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, samgönguráðuneyti, fjármálaráðuneyti og dómsmálaráðuneyti auk formanns sem tilnefndur var af samgönguráðherra. Hópnum var falið eftirfarandi hlutverk:

1. að fara yfir og skilgreina þær kröfur sem gerðar eru í alþjóðasamþykktum um siglingavernd og ákvarða hverjum beri að fullnægja þeim,

2. að gera tillögur að nauðsynlegum laga- og reglugerðarbreytingum til að innleiða framangreindar alþjóðlegar kröfur,

3. að semja siglingaverndaráætlun fyrir Ísland,

4. að kanna fjárhagsleg áhrif innleiðingarinnar.

Hópurinn skilaði skýrslu í janúarlok 2004. Skýrsla stýrihópsins er birt sem fylgiskjal með frumvarpi þessu.

Markmið frumvarpsins er að innleiða í íslenskan rétt alþjóðlegar reglur og skuldbindingar á sviði siglingaverndar.``

Síðan er farið ítarlega í málið og segir, með leyfi forseta:

,,Árangur þessa starfs var sá að á þingi stofnunarinnar`` --- þ.e. Alþjóðasiglingamálastofnunar --- ,,í Lundúnum 9.--13. desember 2002 var samþykkt að gera breytingar á alþjóðasamþykktinni um öryggi mannslífa á hafinu, SOLAS, og taka inn í hana ákvæði til að fyrirbyggja hryðjuverk og aðrar ógnanir á höfunum. Á ráðstefnunni var einnig staðfestur nýr viðauki við SOLAS-samþykktina, svokallaður alþjóðakóði um skipa- og hafnavernd, sem felur í sér nánari lýsingar á skuldbindingum og ráðstöfunum sem aðildarríki samþykktarinnar skulu framfylgja í þessum efnum.``

Svo kemur hv. formaður Samf. og segir að hér séu tillögur þingmanna Sjálfstfl. um aukin álög á útgerð og farmflytjendur.

Áfram stendur hér, með leyfi forseta:

,,Hjá Evrópusambandinu liggja fyrir drög að reglugerð um siglingavernd. Þegar hún hefur öðlast gildi mun hún innleidd í íslenskan rétt samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar koma til framkvæmda 1. júlí 2004 og er lagt til að frumvarpið taki þegar gildi og komi til framkvæmda þann dag.``

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur mikið velt upp spurningum varðandi kostnað sem af þessu hlýst. Hann er nokkuð á reiki. Hins vegar segir svo í kostnaðarumsögn fjmrn.:

,,Samkvæmt áætlun frá ríkislögreglustjóra er gert ráð fyrir að kostnaður embættisins við innleiðingu siglingaverndar verði u.þ.b. 30 millj. kr. og þar af eru u.þ.b. 23 millj. kr. til kaupa á vopnum og búnaði fyrir lögregluna en 7 millj. kr. eru vegna þjálfunar og kynningar lögregluembætta og vinnu við vottun verndarfulltrúa hafnanna. Landhelgisgæslan metur kostnað sinn vegna innleiðingarinnar u.þ.b. 9 millj. kr. og þar af eru 4 millj. kr. vegna kaupa á vopnum og skotheldum vestum fyrir átta manns í áhöfn hvers varðskips. Auk þessa gerir Gæslan ráð fyrir 1,3 millj. kr. árlegum kostnaði við æfingar og námskeiðshald vegna siglingaverndar. Tollstjórinn í Reykjavík áætlar árlegan kostnað vegna siglingaverndar 10 millj. kr. Siglingastofnun hefur haldið utan um vinnu hafnanna til þessa og m.a. gefið út handbók og haldið námskeið fyrir starfsmenn sem eiga að vinna við þessar verndarráðstafanir. Til þessa hefur stofnunin fengið 10 millj. kr. í fjáraukalögum 2003 og 11 millj. kr. í fjárlögum 2004. Stofnunin áætlar árlegan kostnað vegna siglingaverndarinnar u.þ.b. 8 millj. kr.

Samtals er því gert ráð fyrir að kostnaður við innleiðingu siglingaverndar í íslenskan rétt verði um 60 millj. kr., þar af er stofnkostnaður áætlaður um 40 millj. kr. og árlegur rekstrarkostnaður um 20 millj. kr.``

Mér þótti rétt að taka þetta fram, virðulegi forseti, og halda þessu til haga.

Þar sem hv. nefndarmenn í samgn. hafa komið í ræðustól og getið þeirrar vinnu sem viðhöfð var við yfirferð á frv. til siglingalaga vildi ég geta þess að það voru á þriðja tug aðila sem með einum eða öðrum hætti komu að höfnum, siglingum, og öryggismálum hér á landi sem komu til nefndarinnar og þar var málið rækilega rætt og tekið fyrir.

Það er alveg ljóst og kom fram hjá nefndarmönnum að það verður ekki lagt út í meiri kostnað en nauðsyn krefur, vegna þess að í frv. eru ákvæði sem segja til um að hafnirnar verði að leggja fram greinargerð um þann kostnað sem af hlýst vegna siglingaverndar og geta ekki tekið þann þátt beint inn í gjöld, svo sem hafnargjöld eða önnur gjöld sem tilheyra höfnum, vegna þess að þessi liður á að vera mjög skilgreindur þannig að ekki verði hægt að nota ákvæðin til að fara t.d. í samkeppni á milli hafna.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom inn á strandferðir og talaði um að það væri miður að aðeins eitt íslenskt skip stundaði nú strandferðasiglingar. Það er rétt. Hins vegar hefur það margsinnis komið fram í umræðu á Alþingi að það er nokkuð merkilegt að þó fyrir liggi skýrsla sem segir að það sé 70% dýrara að flytja 40 feta gám landleiðina en sjóleiðina ástunda sveitarfélög og útgerðir úti á landi samt sem áður landflutninga. Það hafa engar skýringar komið fram á því hvers vegna þetta er gert með þeim hætti.

Varðandi þá gjaldtöku sem hér hefur verið talað um, t.d. vegna farþega, eru farþegaskipin, sem væntanleg eru hingað og hafa líklega aldrei verið fleiri en þau sem koma til Íslands á þessu sumri, flest með öryggisverði í áhöfn, þ.e. þannig að öryggisgæsla skipsins mun annast alla gæslu farþega sem fara frá borði og koma um borð aftur svo að ekki hlýst kostnaðarauki þar af.

Að lokum, herra forseti, varðandi þá gjaldtöku sem hv. formanni Samf., Össuri Skarphéðinssyni, var tíðrætt um, að þetta væri verk Sjálfstfl., en sagði þó um leið að við ættum ekki annarra kosta völ og að við værum nauðbeygð til að leggja á þessi gjöld. (Gripið fram í: Nei, það er ekki rétt.) Það er einmitt það sem er að gerast. Við eigum ekki annarra kosta völ en að fara í siglingaverndina til þess að geta ástundað útflutning. (Gripið fram í.) Það er alveg ljóst.

Hv. þm. kallar frammí, fyrrum bæjarstjóri í Hafnarfirði. Hann þekkti þá mjög vel til hafnarreksturs og þekkir eflaust að hafnirnar eru ekki að bruðla og munu ekki gera það í þessu sambandi. Þær munu halda vel á þessum málum. En eftir stendur að ljóst er, hver sem í ríkisstjórn hefði setið, að fram hjá kostnaðinum verður ekki komist ef Íslendingar ætla að ástunda útflutning. Þess vegna, virðulegi forseti, verða lögin að taka gildi 1. júlí, eins og fram hefur komið, á þessu ári.

Ég vil nota tækifærið vegna orða hv. þm., formanns Samf., sem féllu í grýttan jarðveg hjá stjórnarsinnum þegar hann beindi orðum til allra nefndarmanna samgn. að þeir hefðu nánast unnið með óeðlilegum hætti og látið hækkanir yfir sig ganga sem ekki ættu sér stoð í tilverunni. Ég vil þakka nefndarmönnum fyrir vel unnin störf og góða yfirferð á málinu. Það hefur verið mjög vel á málinu haldið og liggur ljóst fyrir eftir nefndastörfin að allir þeir aðilar sem að málinu koma eru sammála frv. eins og það lítur út núna.