2004-05-05 13:32:39# 130. lþ. 110.91 fundur 539#B ábendingar umboðsmanns Alþingis um skipun í embætti dómara við Hæstarétt# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[13:32]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ekki hefur farið fram hjá neinum að það hafa risið miklar deilur í framhaldi af mjög umdeildri skipun hæstv. dómsmrh. í embætti hæstaréttardómara. Í gær gerðist það svo að það kom fram álit umboðsmanns Alþingis á þessari skipun í tilefni af kvörtun þriggja lögmanna. Það er óhætt að segja að álitið fól í sér ákaflega harðan áfellisdóm að mínu viti yfir hæstv. dómsmrh. Í því eru gerðar sterkar aðfinnslur við embættisfærslu ráðherrans. Þar kemur skýrt fram að ráðherrann braut rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, sömuleiðis að hann uppfyllti ekki skilyrði laga um dómstóla varðandi málsmeðferð og áður var komið fram að Jafnréttisráð telur að hæstv. ráðherra hafi brotið í bága við jafnréttislög með þessari skipun.

Menn verða að sjálfsögðu að taka álit umboðsmanns Alþingis alvarlega. Hann er ekki eins og hver annar júristi úti í bæ eins og mætti ráða af ýmsum ummælum hæstv. ráðherra í framhaldi af þessu. Honum er ætlað það mikilvæga hlutverk að gæta réttar borgaranna og benda á ef framkvæmd laga er með óhæfilegum hætti gagnvart þeim. Hæstv. dómsmrh. hlýtur því að taka stöðu sína til alvarlegrar umhugsunar og sömuleiðis viðbrögð sín í framhaldi af því.

Álit umboðsmanns varðar líka okkur sem sitjum á Alþingi, sérstaklega vegna þess að hann bendir löggjafanum á að það sé tímabært að skoða hvort ekki eigi að breyta þeim háttum sem við höfum haft á, Íslendingar, við að skipa í embætti hæstaréttardómara. Það er brýnt. Samf. hefur bent á þetta og hún hefur lagt fram þingmál þar sem lagt er til að þessari skipan verði breytt þannig að það verði Alþingi sem fjalli um dómaraefni og það þurfi 2/3 á hinu háa Alþingi til að hægt sé að skipa viðkomandi í Hæstarétt.

Ég vil af þessu tilefni varpa fram þeirri hugmynd, frú forseti, að í sumar verði skipuð sérstök nefnd allra þingmanna þar sem menn reyna að ná breiðri samstöðu um nauðsynlegar breytingar á þessu.