Fríverslunarsamningur við Kanada

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 13:56:15 (7645)

2004-05-05 13:56:15# 130. lþ. 110.1 fundur 771. mál: #A fríverslunarsamningur við Kanada# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[13:56]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. utanrrh. hvað valdi því að enn hefur ekki verið lokið við gerð fríverslunarsamnings EFTA við Kanada en sá fríverslunarsamningur yrði þar með samningur Íslands og Kanada.

Ég bar sömu fyrirspurn fram í árslok 2001 og þá þegar höfðu samningaviðræður staðið yfir af hálfu EFTA-landanna í þrjú eða fjögur ár. Á árinu 2000 var viðræðum við Kanada lýst sem forgangsverkefni Fríverslunarsamtakanna og búist við því að fljótlega yrði samningur undirritaður. Það er því ljóst að ekki hefur skort áhuga af hálfu EFTA-ríkjanna til að gera þennan samning, en þegar ég ræddi málið síðast kom fram hjá hæstv. utanrrh. að niðurgreiddur skipaiðnaður Noregs stæði í veginum fyrir samningunum og að Kanada féllist ekki á fríverslun nema skipaiðnaðurinn lægi algerlega þar utan við en það er mál sem EFTA hefur ekki getað fallist á vegna prinsippsins um að fríverslun gildi um allar iðnaðarvörur. Þá lá einnig fyrir að Noregur og Norðmenn væru að hætta að veita nýja styrki til skipaiðnaðarins og því var búist við að sú ákvörðun Norðmanna yrði til þess að skammur tími liði þar til unnt væri að ganga frá þessum mikilvæga samningi við Kanada.

EFTA-ríkin hafa jafnframt viljað sýna fullan sveigjanleika eftir því sem yfirlýsingar hafa komið fram um sem mér skildist að þýddi einhverja aðlögun að núlltolli en samt hafa þessi lönd ekkert komist áleiðis enn þá. Þetta er mjög þýðingarmikill samningur fyrir okkur, bæði vegna fyrirtækja sem hafa verið að fóta sig á Kanadamarkaði og svo hitt að þarna bíða ný tækifæri þeirra sem eru í iðnaði, útflutningi og að setja upp störf og dótturfyrirtæki í landi eins og Kanada. Þess vegna spyr ég enn á ný hvort það séu einhver önnur ljón í veginum en skipasmíðarnar sem stoppuðu samninginn á sínum tíma, hvað sé þarna um að ræða og hvaða stöðu hæstv. utanrrh. sjái fyrir sér í málinu.